Ólympíuhlaupið sett á Reyðarfirði

Ólympíuhlaup Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, sem þreytt er í grunnskólum um allt land, var sett á Reyðarfirði í morgun.

Þrír starfsmenn sambandsins auk lukkudýrsins Blossa komu austur til að leiða hlaupið.

Árum saman var ÍSÍ þátttakandi og umsjónaraðili hérlendis í Norræna skólahlaupinu. Það hlaup lognaðist út af annars staðar en ÍSÍ hélt sínu striki undir nýju nafni.

Að lokinni upphitun var hlaupið ræst af lóð Grunnskóla Reyðarfjarðar um klukkan tíu í morgun. Þrjár vegalengdir voru í boði, hringur upp að Stríðsárasafni, inn að tjaldsvæði eða að Grænafelli fyrir þá hörðustu.

Ragnhildur Skúladóttir, sviðsstjóri þróunar- og fræðslusviðs ÍSÍ, segir að sambandið hafi horft til þess að setja hlaupið fyrir austan. Reyðarfjörður hafi orðið fyrir valinu því skólinn hafi verið afar tryggur þátttakandi í hlaupinu. Hún var ánægð með hvernig til tókst í morgun.

„Það er æðislegt að hafa komið hingað. Hér taka allir þátt: nemendur, kennarar, starfsfólk. Skólinn var tilbúinn að taka á móti okkur um leið og við höfðum samband.“

Um 70-80 skólar taka þátt í hlaupinu ár hvert. Alls staðar eru þrjár vegalengdir í boði og senda skólarnir inn upplýsingar um þátttökuna til ÍSÍ. Skólarnir fara í pott og eru dregin út gjafabréf sem nýtast til kaupa á íþrótta- eða leikjabúnaði fyrir skólana.

Með í för í morgun var einnig Birgir Sverrisson, framkvæmdastjóri Lyfjaeftirlits Íslands. Hann heldur fyrirlestra fyrir elstu bekkina á Reyðarfirði og nemendur í Menntaskólanum á Egilsstöðum um dag um áhrif orkudrykkja og fæðubótarefna.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.