Sigurður Gunnar í liði ársins

Sigurður Gunnar Þorsteinsson, sem í vetur lék með körfuknattleiksliði Hattar, hefur verið valinn í lið ársins í úrvalsdeild karla.

Tilkynnt var um valið í hádeginu í dag. Sigurður Gunnar lék alla 22 deildarleiki Hattar í vetur. Í þeim skoraði hann 12,6 stig að meðaltali og tók átta fráköst.

Það dugði Hetti ekki til að halda sér í deildinni. Sigurður Gunnar er hins vegar tíundi hæsti í deildinni yfir flest fráköst auk þess sem hann er 19 sé horft til útreiknings á framlagi.

Sé aðeins horft til íslenskra leikmanna er hann þriðji í röðinni yfir framlag, á eftir Ægi Þór Steinarssyni og Kristófer Acox, en lið ársins er aðeins skipað íslenskum leikmönnum.

Sigurður Gunnar verður ekki með Hetti í fyrstu deildinni næsta vetur en hann hefur skipt yfir í Tindastól. Bandaríkjamaðurinn Michael Mallory, sem varð næst stigahæstur að meðaltali í leik í deildinni í vetur, verður heldur ekki áfram.

Í stað hans hefur verið samið við Tim Guers, 25 ára bakvörð sem spilað hefur í Lúxemborg og Víetnam eftir að hann kláraði háskóla. Hann skoraði 22 stig, tók 7,5 fráköst og gaf 5,5 stoðsendingar á lokaári sínu í Saint Anselm háskólanum. Þá hafa samningar verið endurnýjaðir við þá David Guardia, Juan Luis, Sigmar Hákonarson og Brynjar Snær Grétarsson.

Sigurður Gunnar, liggjandi, stal mikilvægum bolta í lok leiks Hattar gegn Haukum í febrúar. Mynd: Körfuknattleiksdeild Hattar


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.