Stirðleiki í áratug milli Hattar og Körfuknattleikssambandsins

Á ýmsu hefur gengið í samskiptum körfuknattleiksdeildar Hattar við Körfuknattleikssamband Íslands (KKÍ) undanfarin áratug. Bæði hafa Hattarar verið ósáttir við reglur um erlenda leikmenn auk þess sem aðkomulið hafa skrópað í leiki á Egilsstöðum án haldbærra skýringa.

Þetta má lesa út úr nýlegum dómi aganefndar KKÍ yfir Viðari Erni Hafsteinssyni, þjálfara úrvalsdeildarliðs karla hjá Hetti. Hann tók nýverið út eins leiks bann fyrir ummæli í viðtali eftir fyrsta heimaleik liðsins á þessari leiktíð, tap gegn Njarðvík.

Þar sagði hann dómara meðal annars hafa „varið annað liðið eins og prinsessur“ og lið hans vera „fimm á móti átta á vellinum.“

En Viðar uppnefndi líka sambandið sem „Körfuboltasamband Reykjavíkur“ og sagði það, dómara og aðra sem kæmu að körfuknattleik í landinu hafa sýnt Hetti vanvirðingu og skítaframkomu.

Í greinargerð lögmanns Viðars er farið yfir samskipti hans og Hattar við KKÍ áratug aftur í tímann til að reyna að útskýra hvers vegna hann uppnefnir sambandið. Þannig er bent á að í kringum formannafund árið 2012 hafi félagið lagt fram lögfræðiálit um að reglur KKÍ um fjölda leikmanna frá löndum utan EES stæðust ekki lög.

Við reglubreytingar á fundinum hafi Höttur, ásamt fleiri landsbyggðarliðum, orðið undir í atkvæðagreiðslu. Síðar hafi eftirlitsstofnanir úrskurðað regluna ógilda og því aftur orðið að gera breytingar.

Fram kemur í greinargerðinni að barátta sé um þessar reglur milli liða á höfuðborgarsvæðinu og þeirra sem séu fjær því óumdeilt sé að landsbyggðarliðin eigi erfiðra með að sækja sér samkeppnishæfa íslenska leikmanna. Takmarkanir á erlendum leikmönnum séu því í þágu liðanna í og við borgina. Á þeirri skoðun hafi talsmenn Hattar ekki legið.

Liðin af suðvesturhorninu skrópa

En einnig eru týnd til nýrri tilfelli. Sagt er frá því að KKÍ hafi lagt hart að þjálfurum úrvalsdeildarliðanna að mæta á blaðamannafund fyrir tímabilið. Höttur hafi óskað eftir að fá að nota fjarfundabúnað en því verið hafnað. Þjálfari hafi því þurft að verja heilum degi í fundinn og ferðir vegna hans til og frá Reykjavík. Á móti hafi fjögur af tólf liðum deildarinnar, öll í minna en klukkustundar akstursfjarlægð frá fundarstaðnum, skrópað.

Þá hafi lið að sunnan tvisvar gefið leiki eystra. Annars hafi Fjölnir á síðustu leiktíð látið vita samdægurs að liðið kæmi ekki austur til leiks í ungmennaflokki og síðan hafi Keflavík ekki mætt til leiks um miðjan september. Ekki er vitað til þess að þetta hafi haft neinar afleiðingar fyrir félögin.

Niðurstaða úrskurðarnefndar var að forsaga málsins skipti ekki máli. Þótt þjálfurum væri gefið rými til gagnrýni eftir leiki yrði hún að vera sett fram málefnalega og án þess að draga heilindi dómara í efa. Viðar Örn hefði vegið ómaklega að þeim sem og KKÍ og öðrum sem komu að körfuknattleik í landinu. Var hann því dæmdur í eins leiks bann.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar