Treyja til minningar um Kristján Orra hengd upp í íþróttahúsinu á Egilsstöðum

Treyja var hengd upp til minningar um Kristján Orra Magnússon, stuðningsmann og fyrrum leikmann Hattar, sem lést af slysförum í sumar áður en leikur liðsins gegn Stjörnunni í úrvalsdeild karla í körfuknattleik hófst í gærkvöldi.

Kristján Orri var einn þeirra þriggja sem voru um borð í flugvélinni TF-KLO sem fórst við Sauðahnjúka í júlí.

Kristján Orri lék upp í gegnum yngri flokka Hattar og síðar með meistaraflokki frá 2004-6. Í minningarorðum, sem flutt voru í gærkvöldi, var komið inn á að hann hefði verið öflugur í félagsstarfi og harður stuðningsmaður á útileikjum, einkum í Garðabæ þar sem hann bjó eftir að hann flutti suður.

Stór treyja með númerinu 12 verður hengd upp í íþróttahúsinu á Egilsstöðum sem minning og þakklætisvottur. Klappað var í mínútu honum til heiðurs og síðan spilað stuðningsmannalag Hattar „Áfram Höttur, skjóta, skora“ sem hann hélt mikið upp á.

Fyrir í húsinu er treyja með númerinu 18 til minningar um Pétur Þorvarðarson Kjerúlf. Hann lést árið 2006 eftir að hafa orðið úti á Fjöllum.

Höttur hafði annars yfirburði í leiknum gegn Stjörnunni, leiddi hann frá fyrstu mínútu og vann að lokum 89-72.

Mynd: Daníel Cekic


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.