Tveir Íslandsmeistaratitlar og mótsmet

Sjö keppendur frá UÍA tóku þátt í Meistaramóti Íslands 11-14 ára sem fram fór á Sauðárkróki fyrir rúmri viku. Héraðsbúinn Björg Gunnlaugsdóttir varð tvöfaldur Íslandsmeistari og setti mótsmet.

Keppendurnir sjö komu alllir frá frjálsíþróttadeild Hattar. Sem fyrr segir var það Björg Gunnlaugsdóttir sem fór fremst í flokki þeirra og vann sigur í bæði 100 metra hlaupi og 600 metra hlaupi í flokki 14 ára stúlkna. Í 600 metrunum hljóp hún á nýju mótsmeti, 1 mínútu 44,23 sekúndum, en alls voru þrjú mótsmet sett á Króknum þessa helgi og voru þau öll í 600 metra hlaupi. Björg var einnig hársbreidd frá þriðja Íslandsmeistaratitlinum en varð að sætta sig við silfurverðlaun í langstökki þar sem aðeins munaði 1 cm á fyrsta og öðru sæti.

Frjálsar íþróttir eru ekki eina greinin sem Björg leggur stund á, en nokkra athygli vakti þegar hún kom inn á í fyrsta leik Fjarðabyggðar/Hattar/Leiknis í 2. deild kvenna í knattspyrnu í ár, þá ekki enn orðin 14 ára gömul.

Auk Bjargar komust þeir Steinar Aðalsteinsson og Gabríel Glói Freysson einnig á verðlaunapall á mótinu. Steinar hreppti silfurverðlaun í hástökki í flokki 13 ára pilta en Gabríel Glói vann til bronsverðlauna í 600 metra hlaupi 11 ára pilta. Aðrir keppendur stóðu sig einnig vel og komust margir í úrslit í sínum greinum.

 

Björg var sátt með verðlaunauppskeruna. Mynd: Aðsend.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.