UÍA Íslandsmeistari í unglingaflokki í glímu
Lið UÍA hampaði um helgina Íslandsmeistaratitli í unglingaflokki í glímu eftir þriðju og seinustu umferð Íslandsmótsins sem glímd var á Ísafirði. Ásmundur Hálfdán Ásmundsson vann til gullverðlauna í flokki +80 kg flokki unglinga á mótinu og fjöldi annarra glímumanna sambandsins fóru heim með verðlaun.
Ásmundur vann gullið eftir að hafa lagt bróður sinn Hjalta Þórarinn sem hafnaði í öðru sæti. UÍA fékk 44 stig í unglingaflokki í vetur og varð sjö stigum á undan Herði. Í kvennaflokki varð UÍA í öðru sæti á eftir HSK og fjórða sæti í karlaflokki. Í heildarstigakeppninni munaði aðeins fimm stigum á UÍA, sem varð í öðru sæti og HSK sem vann með 107 stig.
Fleiri verðlaun skiluðu sér austur. Hjörtur Elí Steindórsson varð í öðru sæti í -80 kg flokki og Eva Dögg Jóhannsdóttir í -65 kg flokki kvenna. Í +65 kg flokknum varð Þuríður Lillý Sigurðardóttir í þriðja sæti Eva Dögg náði síðan bronsi í opnum flokki kvenna.
Næst á dagskrá glímumanna er Íslandsglíman sem glímd verður á Reyðarfirði 2. apríl. Fyrr sama dag fer fram grunnskólaglíma Íslands.