Blak: Vestri reyndist sterkari í oddahrinunni

Karlalið Þróttar tapaði sínum fyrsta leik á leiktíðinni í úrvalsdeildinni í blaki þegar Vestri frá Ísafirði kom í heimsókn á laugardag. Oddahrinu þurfti til að knýja fram úrslitin í hörkuleik.

Liðin skiptust fimm sinnum á forustu í fyrstu hrinunni. Síðasta sveiflan kom eftir að Þróttur hafði verið 17-16 yfir. Þá hrökk allt í baklás og Vestri vann 20-25.

Í annarri hrinu var Vestri yfir fram að 8-11. Þróttur komst í 12-11 en Vestri jafnaði í 12-12. Þá fór Þróttur að ná undirtökunum og komst í 18-14 en Vestramenn voru ekki búnir, jöfnuðu í 18-18 og aftur í 20-20. Þá kviknaði aftur á heimamönnum og þeir unnu 25-21.

Í þriðju hrinu var Vestri aftur yfir 8-11 þegar Þróttur tók sig til og skoraði níu stig í röð og komst í 17-11. Eftirleikurinn var þá einfaldur og hrinan endaði 25-20.

Þróttur komst í 5-1 í fjórðu hrinu en Vestri svaraði með að ná fram úr, 6-7. Gestirnir juku forustuna aðeins meir en síðan varð jafnt á flestum tölum. Þróttur var yfir 17-16 en Vestri seig þá fram úr og vann 23-25.

Oddahrinan varð sú ójafnasta. Vestri skoraði fyrstu þrjú stigin, komst síðan í 2-8 og hélt því forskoti til loka, vann hrinuna 9-15 og leikinn þar með 2-3. Það þýðir hins vegar að Þróttur fær eitt stig úr honum en gestirnir tvö. Miguel Angel og José Federico voru atkvæðamestir í heimaliðinu.

Karlalið Þróttar hvílir um næstu helgi en kvennaliðið spilar gegn Þrótti í Reykjavík á föstudagskvöldið.

Mynd: Blakdeild Þróttar/Sigga Þrúða

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.