Viktor Ívan: Nokkuð viss um ég sé búinn að bæta öll metin hans pabba
Viktor Ívan Vilbergsson frá Fáskrúðsfirði varð nýverið Íslandsmeistari innanhúss í 800 metra hlaupi í flokki 18-19 ára pilta. Bæði Viktor og foreldrar hans hafa lagt mikið á sig til að ná þeim árangri.Viktor hefur lengi sótt æfingar utan heimabyggðarinnar, bæði til Reyðarfjarðar og Egilsstaða. Í viðtali við Austurgluggann í síðustu viku segist hann vera að íhuga hvort hann eigi að flytja suður til að geta æft við betri aðstæður.
Viktor Ívar einbeitir sér að 400 og 800 metra hlaupum og hefur náð þar góðum árangri. Auk þess að vinna 800 metra hlaupið á Meistaramótinu í janúar varð hann þriðji í 400 metra hlaupi.
Hann á ekki langt að sækja íþróttahæfileikana, faðir hans, Vilberg Marinó Jónasson er þekktari fyrir knattspyrnuna, sem næst markahæsti leikmaður Íslandsmótsins í knattspyrnu frá upphafi.
En Vilberg var líka liðtækur í öðrum íþróttum, til að mynda hlaupum. „Hann var góður á sínum tíma og er óhræddur að minnast á það við mig stundum,“ segir Viktor og brosir.
„Hann átti meira að segja um tíma svona montskáp heima með alla verðlaunagripina sína en mamma sagði honum svo að koma því burtu á endanum. Ég er reyndar næstum viss um að ég sé þegar búinn að bæta þau met en ef ekki þá gerist það fljótlega.“
Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum sem kom út í vikunni. Hægt er að panta áskrift hér.