Vilja skipta út dekkjakurli á gervigrasvöllum í Fjarðabyggð
Íþrótta- og tómstundanefnd Fjarðabyggðar hefur falið tómstundafulltrúa að vinna áætlun um að skipta út dekkjakurli á sparkvöllum í sveitarfélaginu.
Í forgangi verða fimm sparkvelli sem byggðir voru með aðkomu Knattspyrnusambands Íslands á árunum 2004-2008. Gúmmíið sem KSÍ lagði til í vellina var hið umdeilda svarta dekkjakurl en því hefur verið haldið fram að það sé skaðlegt heilsu iðkenda.
Að auki eru tveir gervigrasvellir í fullri stærð í sveitarfélaginu. Annars vegar er um að ræða Norðfjarðarvöll sem var tekinn í notkun 2006. Þá var sett á hann svart gúmmí sem ekki er unnið úr dekkjum, um 80-1000 tonn.
Tvisvar hefur verið bætt á hann kurli úr endurunnum dekkjum, samtals um 5-6 tonnum.
Tvær tegundir af gúmmíi eru á Fjarðabyggðarhöllinni en hvorug tegundin er hið umdeilda dekkjagúmmí og aldrei hefur verið bætt á það dekkjakurli.
Síðast var bætt á Fjarðabyggðarhöllina ljósgráu gúmmíi í febrúar 2016 og síðustu ár hefur það verið gert á tveggja ára fresti. Við sama tækifæri er gúmmíið sem fyrir er hreinsað með sérstakri hreinsivél.