Vinna úr umræðu um breytt æfingafyrirkomulag

Aðalstjórn Hattar segist vilja vinna úr umræðu um áform um breytt fyrirkomulag á æfingum barna í 1. og 2. bekk næsta vetur með hagsmuni félagsins að leiðarljósi. Harðvítugar deilur hafa blossað upp um verkefnið síðustu vikur.

Aðalstjórn Hattar, sem er meðal annars skipuð formönnum deilda félagsins, kynnti fyrir nokkru hugmyndir um breytt æfingafyrirkomulag þannig að næsta vetur æfi sex og sjö ára börn þannig þær verði sameiginlegar meðal sex deilda.

Í verkefninu sem kallast „Allir með“ var gert ráð fyrir daglegum æfingum sem skiptust milli deildanna. Á fjölsóttum kynningarfundi í Egilsstaðaskóla fyrir viku var útskýrt að markmið verkefnisins væri að bregðast við brottfalli úr íþróttum á unglingsaldri sem rakið væri til þess að sérhæfðar íþróttaæfingar í ákveðnum greinum byrjuðu of snemma.

Þá er einnig stefnt að jafna aðstöðumun foreldra en hægt á að vera að æfa greinarnar fyrir aðeins eitt æfingagjald.

Verkefnið hefur hins vegar verið umdeilt. Á fundinum í síðustu viku var meðal annars spurt hvernig deildirnar myndu tryggja gæði þjálfunar og hvort deildir gætu boðið upp á fleiri æfingar í hverri viku. Var meðal annars bent á að ef barn vildi aðeins æfa eina íþrótt byðist því aðeins æfing á viku í henni.

Á fimmtudagsmorgunn sagði Sigríður Baxter, yfirþjálfari yngri flokkar hjá knattspyrnudeild Hattar, starfi sínu lausu. Í löngu bréfi sem hún birti til foreldra og forráðamanna lýsti hún sig sammála grunnmarkmiðum verkefnisins um fjölbreytta hreyfingu og jöfnun efnahags en gagnrýndi harðlega útfærslu Allir með.

Í morgun sendi aðalstjórn frá sér tilkynningu þar sem segir að í ljósi umræðu í samfélaginu vilji hún koma því á framfæri að unnið sé að því að vinna úr umræðunni. Vilji hennar sé að leiða málið áfram með hagsmuni félagsins að leiðarljósi.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar