Um þjónustuhlutverk RÚV við Austurland
-Vegna ummæla sem höfð eru eftir Gísla Einarssyni ritstjóra sjónvarpsþáttarins Landans á RÚV, í frétt hér á Austurfrétt í gær (12. mars), vil ég koma á framfæri viðbrögðum við þeirri gagnrýni sem þar er beint að mér. Umræddar athugasemdir Gísla beinast að grein sem ég skrifað og birtist hér á Austurfrétt 9. mars sl. undir yfirskriftinni „Samtal við samfélagið eða brotakenndar myndir – Svæðisútvörpin og Landinn".Mikilvægt er að það komi skýrt fram að könnunin sem ég gerði á efnisvali og uppruna efnis í Landanum, á þeim vetri sem nú er að líða, er viðauki við mun umfangsmeiri rannsókn sem ég hef unnið að og beinist að starfsemi austfirskra svæðisfjölmiðla (bæði prent- og ljósvakamiðla) á tímabilinu 1985-2010. Grein byggð á þessum viðauka birtist svo hér á Austurfrétt 9. mars sl.
Eins og ég segi í greininni er dagskrárgerð Landans allt annarrar gerðar en starfsemi Svæðisútvarpsins var á sínum tíma. Samanburður á þessu tvennu, sem birtist í niðurstöðum könnunarinnar, leiðir hins vegar í ljós grundvallarmun á þjónustu RÚV við Austurland á árunum fyrir 2010 og nú í samtímanum. Það er aðalatriðið. Viðameiri athugun á efni Landans yfir lengra tímabil væri vafalaust áhugaverð, en takmarkaður tími sem ég hef til minnar rannsóknar setti mér mörk.
Landinn var á sínum tíma kynntur af hálfu RÚV sem það sem kæmi í stað svæðisbundinnar starfsemi eftir að hún var lögð niður í byrjun árs 2010. Sjónvarpsþáttur eins og Landinn, jafn ágætur og hann oft er, getur ekki formsins vegna fyllt það skarð sem Svæðisútvarpið skyldi eftir á Austurlandi. Það sinnti öllum meginhlutverkum fjölmiðla, þ.e. aðhalds-, upplýsinga- og umræðuhlutverkum. Bæði innan svæðis og á landsvísu. Fréttamaður RÚV á Austurlandi sinnir í dag fréttahlutverkinu á landsvísu, sem var áður einn þáttur í starfsemi Svæðisútvarpsins.
Athugasemdir þær sem Gísli hefur gert við mig í tölvupósti (og vísað er til í fréttinni) snúa einkum að framsetningu í greininni, en hnekkja ekki niðurstöðum hennar. Hann dvelur mjög við flokkun mína á efni eftir landshlutum og fjórðungum. Í töflu sem fylgir greininni er fjöldi innslaga sundurgreindur í landshluta. Þar eru t.d. Vesturland og Vestfirðir tilgreindir sérstaklega sem og Austurland og Suðausturland. Síðan dreg ég þetta saman eftir fjórðungum og þá lenda Vesturland (með 4 innslög) og Vestfirðir (með 15) saman líkt og Austurland (með 7 innslög) og Suðausturland (með 2). Þetta er í samræmi við hefðbundna fjórðungaskiptingu.
Þannig kemur út að Vesturlandsfjórðungur er með 19 innslög og Austurlandsfjórðungur með 9. Svæðisútvarpið á Austurlandi starfaði á fjórðungsvísu og því er eðlilegt að setja þetta svona fram. Niðurstaðan er að Austurlandsfjórðungur sé með lítinn hluta af heildinni af innslögum í Landanum og áberandi minna en aðrir fjórðungar. Með því er ég ekki á nokkurn hátt að fela það að önnur landsvæði innan ákveðinna fjórðunga kunna líka að hafa orðið útundan (það kemur jú fram í töflunni. En mín umfjöllun snýst fyrst og fremst um Austurland og það hefur áhrif á framsetninguna.
Ég á annars síður von á því að þeim sem lásu greinina hafi almennt þótt þessi framsetning mín mjög torskilin.
Svæðisbundnar útsendingar landshlutastöðva RÚV voru lagðar niður snemma árs 2010, samhliða var starfsmönnum RÚV á landsbyggðinni fækkað verulega. Skýringin sem stjórnendur RÚV gáfu á þessari ákvörðun var sparnaður í rekstri stofnunarinnar. Vert er að rifja upp að ári áður ætluðu stjórnendur RÚV að leggja svæðisútvörpin niður á sömu forsendum en hættu þá við eftir hörð mótmæli fólks víða um land.
Ríkisútvarpið hefur þurft að takast á við ítrekaðan niðurskurð á opinberum framlögum undanfarin ár. En vert er að hafa í huga að þó sparnaðarkrafan komi frá stjórnvöldum þá er það stjórnenda RÚV að ákveða hvar innan stofnunarinnar sé skorið niður eða hagrætt í rekstrinum. Það er þeirra val hvað er og hvað fer. Niðurskurður hjá stofnunum leiðir raunar á tíðum einnig til þess starfsemin er endurmótuð og nýir kostnaðarliðir skapast á móti því sem er sparað.
Þegar svæðisbundin starfsemi landshlutstöðvana var lögð niður sögðu stjórnendur RÚV að sparnaðurinn við það næmi um 31 milljón króna (á þáverandi verðlagi). Þetta var áætlaður sparnaður af niðurlagningu útsendinga allra stöðvanna, ekki bara á Austurlandi. Þetta er ekki há upphæð í heildarútgjöldum RÚV. En við þessa ákvörðun varð Austurland fyrir óumdeildri þjónustuskerðingu af hálfu almannaútvarpsins.
Framleiðsla sjónvarpsefnis er jafnan umtalsvert dýrari en framleiðsla efnis fyrir útvarp. Því má velta því fyrir sér hvað eftir stendur af sparnaðinum frá 2010 þegar kostnaður við framleiðslu þess sem koma átti í stað svæðisbundnu starfseminnar er reiknaður inn í dæmið.