Hafliði ráðinn framkvæmdastjóri Þróunarfélagsins
Hafliði Hafliðason hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Þróunarfélags Austurlands tímabundið, í kjölfar uppsagnar Stefáns Stefánssonar framkvæmdastjóra félagsins. Þá hefur verið skipuð þriggja manna framkvæmdastjórn félagsins. Stjórnin mun ekki þiggja starfsframlag fráfarandi framkvæmdastjóra á uppsagnartímanum. Fyrirtæki í eigu Stefáns þáði 26 milljónir króna greiðslu við sölu Malarvinnslunnar til Kaupfélags Héraðsbúa haustið 2007.
Hafliði Hafliðason lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Sund 1998. BA. gráða í sagnfræði, með stjórnmálafræði sem aukagrein frá Háskóla Íslands 2002. MA í alþjóðastjórnmálum frá University of Sussex, Englandi 2004. Hann starfaði hjá Tekjusviði Fjársýslu ríkisins frá 2004 til 2006. Með háskólanámi m.a.starfsmaður VISA, gerði heimildaþætti fyrir Stöð 2 og vann að vefsíðugerð hjá tölvufyrirtækinu OZ.
Hefur sinnt málefnum byggðaþróunar á Austurlandi: Verkefnastjórnun, ráðgjöf, stefnumótun, úttektir og rannsóknir á sviði byggðamála.
-
6. nóvember sendi Stefán Stefánsson fv. framkvæmdastjóri Þróunarfélags Austurlands frá sér eftirfarandi fréttatilkynningu til Ríkisútvarpsins og er hún birt hér þar sem Austurglugginn tók upp frétt RÚV um málið.
,,Ríkisútvarpið flutti í gær ítrekað fréttir af sölu Malarvinnslunnar til Kaupfélags Héraðsbúa og aðkomu minni að því máli. Öll var framsetningin á þann máta að glæpur hefði verið framinn og að ég undirritaður hefði framið glæpinn. Slegið var fram, án nokkurs rökstuðnings, að minn þáttur í málinu væri ,,sorglegur" og ,,siðlaus" svo dæmi séu tekin.
Hvergi í þessari umfjöllun Fréttastofu Ríkisútvarpsins kemur fram hvaða brot ég eigi að hafa framið. Í því sambandi get ég upplýst að félag í minni eigu kom að sér verkefni, á árinu 2007, sem snerist um þessa sölu á Malarvinnslunni. Þessi verktaka var í fullu samræmi við ráðningarsamning minn sem framkvæmdastjóri Þróunarfélags Austurlands. Þetta er staðfest af stjórnarformanni Þróunarfélagsins. Því síður voru nokkur lög eða aðrar reglur brotnar í þessu verkefni. Þá bendi ég á að aldrei hefur verið gerður ágreiningur um störf mín fyrir Þróunarfélagið, svo sem sjá má af fundargerðum stjórnar.
Ég harma að í fréttaumfjöllun Ríkisútvarpsins hefur verið blandað saman óskyldum málefnum og með því vegið að starfsheiðri mínum og heiðarleika."