Um aðstæður fyrir göng undir Fjarðarheiði

Þann 12. febrúar birtist á Austurfrétt frétt þar sem sagt frá fundi um samgöngumál á Eskifirði. Ágúst Guðmundsson jarðfræðingur flutti þar erindi og er m.a. haft eftir honum að hann óttist að aðstæður til jarðgangagerðar undir Fjarðarheiði geti um margt verið líkar aðstæðum í Vaðlaheiði. Þetta kemur á óvart, flestir sem hafa skoðað aðstæður, telja að mikil líkindi sé með aðstæðum fyrir Norðfjarðargöng og Fjarðarheiðargöng.

Það voru alls konar vandræði í Vaðlaheiðargöngum, þannig að mögulega má segja hér eftir, að komi erfiðleikar fyrir í göngum þá hafi sömu erfiðleikar verið i Vaðlaheiðargöngum. Það skýrir þó málið sennilega ekki mikið. Hér verða nefnd nokkur atriði varðandi Fjarðarheiðargöng.

Vatn

Á Vestfjörðum hefur komið mismunandi mikið vatn í göng. Í göngum á Austfjörðum, það er Fáskrúðsfjarðargöngum og Norðfjarðargöngum, hefur verið lítið vatn. Á Tröllaskaga kom hins vegar mjög mikið mikið vatn í göngin um Múla og Héðinsfjörð. Vaðlaheiði er í nágrenninu og þar kom líka nokkuð mikið kalt vatn.

Að einhverju leyti má skýra þetta með mun á jarðfræði á þessum svæðum. Berg á Austurlandi er tiltölulega þétt. Á Tröllaskaga er meira af opnum sprungum vegna tíðra jarðskjálfta. Rannsóknir á bergi undir Fjarðarheiði sýna frekar þétt berg, en líka hafa fundist opnar sprungur. Almennt er þó ekki búist við miklu vatni í Fjarðarheiðargöngum, en það getur þó komið á einstökum stöðum um opnar sprungur þar sem þær eru. Það getur því komið vatn og ekki er gott að stoppa innrennsli í vatnið á heiðinni. Unnið er að hönnun ganganna og eru tillögur uppi um að fylgjast vel með mögulegu innrennsli göngin samhliða grefti og þétta bergið á einstökum svæðum til að hindra mikið innrennsli.

Setberg

Það sem tafði mest og var dýrast í Norðfjarðargöngum voru veik setbergslög. Þau eru líka í Fjarðarheiði líklega í svipuðu hlutfall, þó að um það sé allmikil óvissa. Meira af þessum lögum virðist vera Héraðsmegin. Svo kemur oft eitthvað fyrir við jarðgangagerð sem enginn sá fyrir. Í löngum göngum eru miklar líkur á einhverju slíku.

Lengd

Göngin eru áætluð mjög löng, rúmlega 50% lengri en Norðfjarðargöng, og verða væntanlega grafin til helminga frá báðum endum eða 6,5 km hvoru megin. Til samanburðar má nefna að grafnir voru um 4,5 km frá Eskifirði í Norðfjarðargöngum og 5 km frá Eyjafirði í Vaðlaheiði. Einhverjir auknir erfiðleikar eru við að grafa svo langt, bæði aukin loftræsing og lengra að flytja efnið út, en ekki er álitið að það skipti miklu máli. Framkvæmdatíminn er sennilega í nokkuð beinu hlutfalli við lengd ganga og getur orðið um 7 ár.

Gangaleið

Til að gera gott vegakerfi á Austfjörðum þarf göng frá Norðfirði um Mjóafjörð til Seyðisfjarðar og svo þarf göng á milli Héraðs og Fjarða. Þar eru tvær leiðir mögulegar, undir Mjóafjarðarheiði 9 km eða undir Fjarðarheiði 13,3 km. Göng undir Mjóafjarðarheiði eru 4 km styttri og sirka 10 milljörðum ódýrari. Göng um Fjarðarheið leiða til betra vegakerfis sem leiðir til styttri vegalengda og minni aksturs. Hvora leiðina á að velja er hægt að hafa mismunandi skoðanir á.

Svo er bara að vona að byrjað verði sem fyrst.

Höfundur er forstöðumaður jarðgangadeildar Vegagerðarinnar

Frá rannsóknaborunum á Fjarðarheiði. Mynd úr safni.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.