Rýmt verður í Neskaupstað og á Seyðisfirði í kvöld
Ákveðið hefur verið að rýma hús á Seyðisfirði og í Neskaupstað í kvöld vegna snjóflóðahættu. Spáð er allt að 300 millimetra uppsafnaðri úrkomu fram á þriðjudagsmorgun. Veðurviðvaranir fyrir svæðið hafa verið uppfærðar í appelsínugult og óvissustigi lýst yfir.Veðurstofan gaf í gær út gular viðvaranir fyrir bæði Austurland að Glettingi og Austfirði. Þær voru upp úr klukkan ellefu í dag uppfærðar í appelsínugular. Viðvörunin fyrir Austurland tekur gildi klukkan 14:00 í dag og gildir í sólarhring, en fyrir Austfirði á hádegi og gildir fram á mánudagskvöld. Þá tók óvissustig gildi vegna snjóflóðahættu á hádegi.
Rýmingarnar taka gildi klukkan 18:00 á báðum stöðum. Ekki hefur verið gefið út opinberlega hvaða svæði verða rýmd, en á þeim eru bæði íbúðabyggð og atvinnuhúsnæði. Þar með reynir væntanlega í fyrsta sinn á rafræn rýmingarkort sem tekin voru í gagnið fyrir áramót en vinna við þau hófst eftir snjóflóðin 2023. Rafrænu rýmingarkortin má nálgast í kortasjá Fjarðabyggðar og kortasjá Múlaþings og eru til fyrir Neskaupstað, Eskifjörð, Fáskrúðsfjörð og Seyðisfjörð. Valið er úr valmynd til hægri „skipulag“ og „rýmingarsvæði“.
Ástæðan er norðaustanhríð, með hvassviðri og snjókomu, sérstaklega á Austfjörðum. Í frétt frá ofanflóðadeild Veðurstofunnar segir að þegar hafi safnast um 50 mm af snjó til fjalla eftir snjókomu í gær. Fram til þriðjudagsmorguns megi gera ráð fyrir allt að 300 mm uppsafnaðri úrkomu, sem samkvæmt korti yrði á svæðinu milli Borgarfjarðar og Reyðarfjarðar. Það geta verið nokkrir metrar af snjó til fjalla.
Veðurstofan segir að þetta þýði að búast megi við aukinni snjóflóðahættu þegar líður á veðrið. Vöktun hefur þess vegna verið aukin. Vegagerðin hefur þegar sent frá sér viðvörun um að snjóflóðahætta kunni að skapast á Fagradal.
Sex snjóflóð voru í gær skráð hjá Veðurstofunni og höfðu fallið aðfaranótt laugardags. Það stærsta, af stærðinni 2,5 féll úr Tröllagildi ofan Neskaupstaðar. Snjóflóð af stærðinni 2 geta grafið mann. Í gær féllu líka tvö flóð úr Bræðslugjá og eitt úr Bagalsbotnum. Í Breiðdal féllu tvö flóð, annað úr Færivallaskriðum en hitt úr Kambanesskriðum. Það síðarnefnda lokaði veginum. Athuganir benda til þess að snjóþekjan til fjalla sé óstöðug.
Í yfirliti Bliku er bent á að talsverð úrkoma geti einnig orðið á norðurhluta Austurlands, í kringum Vopnafjörð og inn á Möðrudalsöræfi. Blika gerir ráð fyrir minni snjókomu í Neskaupstað en Veðurstofan, um 100 mm í stað 160 yfir 36 tíma. Á Seyðisfirði er búist við 100 mm snjókomu á sama tíma og 160 mm upp í Bjólfi.
Hjá Bliku er bent á að veðrið minni að einhverju leyti á aðstæður sem sköpuðust í snjóflóðahrinunni í lok mars árið 2023. Þá féllu snjóflóð á byggð í Neskaupstað. Þar eru hins vegar hafnar framkvæmdir á snjóflóðavörnum og hluti þeirra orðinn virkur þrátt fyrri að vera ekki fullbyggður.
Aðsend mynd frá 2022.