101 tindar og toppar: Austurland orðið útundan í göngubókum
Fjallaleiðsögumaðurinn Skúli Júlíusson vinnur nú að útgáfu bóka um gönguleiðir á fjöll á Austurlandi sem fyrirhugað er að komi út í sumar. Hann segir að skort hafi bók um Austfjarðafjallgarðinn.
„Hugmyndin að bókinni kviknaði fljótlega þegar ég fór að ganga á fjöllin hérna. Það eru til margar flottar bækur um íslensk fjöll en í þeim hafa alltaf verið frekar fá fjöll frá Austurlandi,“ segir Skúli.
„Þær eru flestar skrifaðar af fólki sem býr fyrir sunnan og því hafa flest fjöllin verið af því svæði.Mér var sagt að það þyrfti að skrifa svona bók en tók hæfilega mikið mark á þeim röddum.
Hugmyndin blundaði samt alltaf í mér og ég hélt til haga öllum upplýsingum. Þegar austfirska forlagið Bókstafur tók til starfa opnaðist þessu möguleiki.“
Bókin ber heitið 101 Austurland: Tindar og toppar. Eins og nafnið ber með sér er þar tekin fyrir gönguleið á 101 fjall eða tind á Austurlandi á svæðinu frá Álftafirði til Njarðvíkur, flestar í Austfjarðafjallgarðinum.
Hverri gönguleið fylgir leiðarlýsing með hagnýtum upplýsingum eins og hvaðan sé best að leggja af stað, hver hækkunin er, hve löng leiðin er og hvar best sé að fara til að forðast hættur. Þá eru kort og myndir af leiðunum.
Skúli hefur gert fjallgöngur að lifibrauði sínu í gegnum gönguhópinn Wild Boys og býður ferðamönnum upp á leiðsögn á austfirsk fjöll. „Ég er alinn upp í fjallgöngum síðan ég var smápjakkur. Ég er búinn að fara flest fjöllin í bókinni oft, kannski sum alltof oft.
Það er erfitt að útskýra hvað dregur mann á fjöllin en við sem stundum þau skynjum einhvern kraft og hleðslu sem maður fær á fjöllunum.“
Stefnt er á að bókin komi út um miðjan júlí en söfnun stendur yfir fyrir útgáfunni á Karolina Fund út vikuna.