Sexfætt lamb fæddist í Norðfjarðarsveit: Ætlaði að fá fjögur læri en ekki fjóra framparta

lamb 2hofud hihAxel Jónssyni, bónda á Kirkjubóli í Norðfjarðarsveit, brá nokkuð í brún á sauðburðinum þegar hann fékk lamb með sex fætur. Dýralæknir segir vansköpunina tilkomna af truflun í frumuskiptingu."

„Ég þarf eitthvað að endurmeta ræktunina hjá mér. Ég ætlaði að fá fjögur læri en ekki fjóra framparta," segir Axel.

„Okkur tókst ekki að ná því lifandi. Það sat fast á afturfótunum en sennilega hefur það bara drepist þegar við vorum að draga það úr rollunni. Okkur gekk mjög illa að ná því. Ég hélt á tímabili að það væru tvö lömb að koma áður en fann að svo var ekki."

Lambið var með tvo framfætur, tvo afturfætur og svo tvo framfætur að aftan í viðbót og allir fætur jafnstórir.

„Við höfum áður séð aukafætur en þeir eru þá bara stubbar. Lambið var fullskapað og það hefði verið gaman að sjá það ganga," segir Axel. Hjá honum er sauðburði að verða lokið. Þar voru þrjár ær eftir óborgar af þeim 137 sem voru á vetrarfóðrum.

Lambið hefði átt að geta lifað

Hákon Hansson, dýralæknir á Breiðdalsvík, tekur undir að áhugavert hefði verið að ná lambinu og fylgjast með því eða rannsaka það betur, til dæmis með röntgenmynd til að gera sér grein fyrir tengingu aukafótanna við fullskapaða lambið. „Ég geri ráð fyrir að það hefði átt að geta lifað."

Hann segir vanskapanir sem þessa sjást annað slagið. „Um er að ræða að á fyrstu vikum fósturstigsins eru að vaxa eineggja tvíburar, sem sagt frjóvgað egg skiptir sér í tvennt. Þetta getur gerst mjög snemma, á fyrstu stigum fósturþróunar en einnig getur það gerst nokkru síðar.

Þarna hefur orðið einhver truflun í frumuskiptingunni og aðeins hluti annars tvílembingsins náð að þróast en ekki er víst hvernig tengingin við þann fullvaxna hefur átt sér stað."

Þrisvar séð lömb með tvö höfuð

Hákon segist þannig þrisvar sinnum á 37 ára ferli hafa séð lömb með tvö höfuð. Ástæðan sé sú sama og hjá sexfætta lambinu. Hann segist tvíhöfða lömbin náðst lifandi með keisaraskurði og eitt þeirra hafa sogið eins í báðum kjöftum.

„Raunar eru til tilfelli eftir allri hryggsúlunni, tveir hausar, tvöfaldur brjóstkassi með fjórum framfótum, tvöfaldur skrokkur fastur saman á hryggnum með 8 fótum og tvöföld mjaðmagrind með fjórum afturfótum. Einhver truflun á skiptingu skrokkanna á fósturskeiði. Ekki ósvipað þróun síamstvíbura."

Hákon hvetur bændur sem fá lömb með slíkar vanskapanir til að láta sína dýralækna vita því fróðlegt geti verið að skoða þau nánar í þágu vísindanna.

lamb 6faetur web

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar