Austfirsk heimildamynd á Skjaldborgarhátíðinni um helgina

Max lamb c pete collardHeimildamynd um Designs from Nowhere verður sýnd á heimildarmyndahátíðinni Skjaldborg á Patreksfirði um helgina. Myndin heitir „The more you know" og fjallar hún um samskipti hönnuðarins Max Lamb og Vilmundar Þorgrímssonar (Villa í Hvarfi) við Djúpavog haustið 2013.

Max dvaldi á Austurlandi í rúma viku hjá Vilmundi sem þátttakandi í hönnunarverkefninu Designs from Nowhere en meginmarkmið verkefnisins er að rannsaka og sýna fram á möguleika í sérhæfðri smáframleiðslu á hönnunarvöru á Austurlandi. Verkefnið hefur verið styrkt af Vaxtarsamningi og Menningarráði Austurlands og notið ráðgjafar og stuðnings frá starfsfólki Austurbrúar.

Leikstjóri myndarinnar er Karna Sigurðardóttir og hún lýsir myndinni sem stuttri heimildamynd með „hægu tempói og afslappaðri frásögn Max Lambs" þar sem upplifun hönnuðarins á Austurlandi er í aðalhlutverki.

„Okkur langaði að heyra og sýna raunverulega upplifun hönnuðarins á svæðinu," segir Karna sem býr til myndina ásamt sambýlismanni sínum Viktor Sebastian - hann sá um myndatöku og hún um framleiðslu og leikstjórn.

„Samskipti Max og Villa voru frá upphafi mjög falleg og þróuðust yfir í sérstaka vináttu. Samveran virðist hafa haft þau áhrif að þeir fóru báðir í vissa sjálfskoðun. Óneitanlega er boðskapur í myndinni um að við sýnum mismunandi lifnaðarháttum virðingu þó við hræðumst oft það sem virðist framandi. En í framandleikanum finnast oft gimsteinar," segir hún.

Myndin er núna að ferðast um kvikmyndahátíðir og svo verður hún sýnd á DFN sýningunni í London í haust á London Design Festival). Sjá má stutt sýnishorn úr myndinni með því að smella hér.

Á hátíðinni er einnig sýnd myndin Vertíð en þar eru heimsóttar fjórar listahátíðir á landsbyggðinni sumraið 2012, þar á meðal LungA á Seyðisfirði.

Hægt er að kynna sér Designs from Nowhere betur á heimasíðu verkefnisins.

Lesa viðtal Austurfréttar við Max Lamb um dvölina.

Mynd: Pete Collard

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar