„Ekki fyrir viðkvæma, aðeins víðsýna": Sirkus Íslands á Frönskum dögum

sirkus11„Þið voruð ekki góðir áhorfendur. Þið voruð frábær!" Með þessum orðum kvaddi sirkusstjórinn Margrét Erla Maack hamingjusama áhorfendur sýningarinnar Heima er best á Fáskrúðsfirði í gær.

Eins og Austurfrétt greindi frá, verður Sirkus Íslands staðsettur á Fáskrúðsfirði á Frönskum dögum um helgina og skemmtir gestum með þremur mismunandi sýningum, en lesa má nánar um þær hér.

Blaðamaður Austurfréttar skellti sér á fyrstu sýningu hópsins á austfirskri grundu  og skemmti sér konunglega. Náði einnig tali af sirkusstjóranum í hléinu.

„Það er svo gaman að fara út á land, enda heitum við Sirkus Íslands, ekki Sirkus Reykjavíkur. Við fórum í fyrsta sinn um landið í fyrra en náðum þá ekki að koma austur þannig að við erum sérstaklega ánægð með að vera loksins komin."

Mikil fagnaðarlæti voru í salnum og áhorfendur stóðu á öndinni, enda ekki á hverjum degi sem slík skemmtun stendur til boða. „Það er alltaf frábært að fara á nýja staði og þá eru fagnarlætin meiri eins og í dag. Við finnum einnig fyrir miklu þakklæti heimamanna – það eru allir svo hamingjusamir og þess vegna er svo ánægjulegt að geta komið," segir Margrét Erla.


Minni búningar og dónalegri brandarar

Blaðamaður gat ekki sleppt Margréti Erlu án þess að spyrja út í fullorðins-sýninguna Skinnsemi. „Hún er mjög skemmtileg. Þegar maður er búinn að verja miklum tíma í að koma fram fyrir börn þá langar mann svo til þess að segja „hina brandarana" sem ekki má á þeim sýningum," segir Margrét Erla og hlær.

„Skinnsemi er allt öðruvísi sýning. Vissulega sirkus, en meira eins og kabarett. Þar höfum við minni búninga, dónalegri brandara og vínveitingaleyfi.

Sýningin fer alveg fyrir brjóstið á fólki og alveg yfir strikið, en það er akkúrat það sem hún á að gera. Skinnsemi er ekki fyrir viðkvæma, aðeins víðsýna," segir Margrét Erla og hvetur alla sem vilja upplifa skemmtilegt kvöld að mæta.

sirkus01sirkus010sirkus02sirkus04sirkus05sirkus06sirkus07sirkus09sirkus11

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar