Ormsteiti hefst á morgun: „Þetta er bara allt að smella“
Bæjar- og menningarhátíðin Ormsteiti hefst á morgun og stendur til 23. ágúst. Fjöldi viðburða er á dagskránni næstu tíu daga og samkvæmt Guðrúnu Lilju Magnúsdóttur, framkvæmdastjóra Ormsteitis, hefur undirbúningurinn gengið vel.„Það gengur bara rosavel og þetta er allt að hafast. Það er fullt af frábæru fólki sem er með mér í þessu, þannig að þetta er bara allt að smella,“ segir Guðrún Lilja í samtali við Austurfrétt.
Í dag er formlegur skreytingardagur í hverfum sveitarfélagsins en þó segir Guðrún Lilja að sumir séu löngu búnir að skreyta. „Fellamenn tóku sig til á þriðjudaginn og misstu sig í skreytingagleðinni. En svo er formlegur skreytingadagur í dag, þannig að það eiga bara allir að taka saman höndum og skreyta hverfin.“
Dagskrá Ormsteitisins er fjölbreytt og teygir sig víða, en auk dagskrár í þéttbýlinu á Egilsstöðum og í Fellabæ eru viðburðir í Fljótsdal, Möðrudal og víðar. „Ég er spennt fyrir karnivalinu og hverfahátíðinni á laugardaginn og svo finnst mér allt sem Óbyggðasetrið er að gera ótrúlega skemmtilegt. Svo er hreindýraveislan auðvitað alveg toppurinn og Nostalgíuballið sömuleiðis,“ segir Guðrún.
Héraðsvaka, sem haldin verður í Valaskjálf á föstudaginn í næstu viku, er nýr dagskrárliður á Ormsteiti. „Þar er verið að stíla aðeins inn á heldri borgarana okkar, 55+. Jóhannes Kristjánsson eftirherma kemur þá og skemmtir og það verður hagyrðingakvöld.“
Ljóst er að nóg er um að vera á Ormsteiti og Guðrún leggur áherslu á að til þess að sem best til takist verði allir bæjarbúar að leggjast á eitt og taka virkan þátt í hátíðinni.
Dagskrá Ormsteitis má skoða í heild sinni á ormsteiti.is
Mynd: Frá hverfaleikum Ormsteitis árið 2013