Helgin: Ormsteiti hefst, Siggi Hall eldar og Valdimar leikur sín uppáhalds lög í Fjarðarborg

braedslan 2015 0124 webÞað er ýmislegt að gerast á Austurlandi um helgina og í þessu yfirliti er hægt að sjá það helsta.

Valdimar Guðmundsson úr hljómsveitinni Valdimar slær síðustu tóna tónleikasumarsins 2015 hjá Já Sæll í Fjarðarborg á Borgarfirði í kvöld. Hann mun flytja sín uppáhalds lög með aðstoð Arnar Eldjárn. Tónleikarnir hefjast kl. 21:00.

Útgáfu ljóðabókarinnar Þar sem bláklukkan grær eftir Jónbjörgu S. Eyjólfsdóttur verður fagnað á útgáfuhófi í Hlymsdölum í dag kl. 17:00. Fjölskylda höfundar flytur dagskrá í tali og tónum, sungin verða lög við ljóð Jónbjargar og lesið úr bókinni.

Meistarakokkurinn Siggi Hall er á ferðinni á milli Eddu-hótela í sumar og eldar þar af sinni alkunnu snilld. Hann er á ferðinni á Austurlandi um helgina og verður hægt að bragða á fjögurra rétta matseðli hans á Hótel Eddu á Egilsstöðum í kvöld, föstudag og á Hótel Eddu í Neskaupstað á laugardagskvöld.

Ormsteiti hefst um helgina með föstum liðum eins og Fellasúpu, karnivali, hverfaleikum á Vilhjálmsvelli og Möðrudalsgleði. Þar verður eflaust mikið um dýrðir. Nánar má fræðast um dagskrána og einstaka viðburði á heimasíðu Ormsteitis.

Hjólreiðakeppnin Tour de Ormurinn fer fram á morgun og þeir sem ætla að aka Fljótsdalshringinn í fyrramálið ættu að hafa bæði augun á veginum á leið sinni og sýna hjólreiðamönnum fyllstu tillitssemi.

Golfarar á Austurlandi geta skellt sér á Vopnafjörð og tekið þátt í opna HB Granda mótinu, sem haldið er á Skálavelli á morgun. Upplýsingar og skráning á er á golf.is.

Ferðafélag Fjarðamanna og Ferðafélag Fljótsdalshéraðs standa sameiginlega að ferð í Vöðlavík á morgun, laugardag. Gengið verður frá kirkjugarðinum í Vöðlavík upp á Svartafjalla, þaðan á Sauðatind og af honum á Krossanesmúla og síðan niður í Vöðlavík. Mæting kl. 9 við hús Ferðafélags Fljótsdalshéraðs og kl. 10 við afleggjarann til Vöðlavíkur.

Landsvirkjun verður með dagskrá á Egilsstöðum og við Kárahnjúkastíflu um helgina, í tilefni 50 ára afmælis Landsvirkjunar. Við Bílaverkstæði Austurlands verður sýning á rafbílum og rafknúnum reiðhjólum á laugardag á milli 13 og 16.

Í Hótel Valaskjálf verður heimildarmyndin Búrfell sýnd á hálftíma fresti á laugardag, sömuleiðis á milli 13 og 16. Þá verður leiðsögumaður við Kárahnjúkastíflu laugardag og sunnudag á milli 14 og 17. Sagt verður frá framkvæmdunum og náttúrufari undir norðanverðum Vatnajökli.

Guðsþjónustur verða í Möðrudalskirkju og Þingmúlakirkju um helgina. Á Möðrudal verður messað á laugardag kl. 14 en í Þingmúlakirkju verður kvöldguðsþjónusta kl. 20 á sunnudagskvöld.

Góða helgi!

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.