Eldklerkurinn á ferð um Austurland

eldklerkurinnMöguleikhúsið sýnir leiksýninguna Eldklerkinn á Austurlandi í vikunni. Þar er sögð saga Jóns Steingrímssonar prófasts Vestur-Skaftfellinga á tímum Skaftáreldanna en skrif hans eru merkar heimildir um eldsumbrotin.

Kunnastur er hann fyrir eldmessuna er hann flutti í miðjum Skaftáreldum, en hver var hann, hvaðan kom hann og hver urðu örlög hans?

Í leikritinu er sögð saga frá 18. öld af góðum bónda, lækni og presti sem þarf að takast á við afleiðingar skelfilegustu náttúruhamfara Íslandssögunnar á tímum örbirgðar og undirokunar.

Frá honum eru komnar nákvæmustu lýsingarnar af Skaftáreldum sem varðveittar eru, auk þess sem sjálfsævisaga hans er einstakt rit innan íslenskrar bókmenntasögu og gefur góða sýn inn í daglegt líf og hugmyndaheim fólks á 18. öld. Skarpskyggni Jóns endurspeglast víða í ritum hans og eru lýsingar á Skaftáreldum glöggt dæmi um það.

Leikverkið byggir að mestu á skrifum Jóns, en um leið vekur það spurningar um hliðstæður við hamfarir af völdum manna og náttúru sem yfir þjóðina hafa dunið á síðustu árum.
Höfundur handrits og leikari er Pétur Eggerz en leikstjóri Sigrún Valbergsdóttir.

Sýnt var á Djúpavogi á sunnudag og Egilsstöðum í gærkvöldi en í kvöld verður sýnt í Fjarðarborg á Borgarfirði, í Vopnafjarðarkirkju annað kvöld og í Eskifjarðarkirkju á fimmtudagskvöld.

Allar sýningarnar hefjast klukkan 20:00.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar