„Góð mynd segir meira en þúsund orð"

ljosmyndasafn djupavogur"Það er gamla fólið sem man þessa tíma og því er sérstaklega mikilvægt að skrá gögnin meðan hægt er, segir Andrés Skúlason, oddviti Djúpavogshrepps.

Þeir Andrés og Ólafur Björnsson tæknifulltrúi standa fyrir reglulegum myndasýningum á gömlum ljósmyndum í Tryggvabúð á Djúpavogi, en ein slík er fyrirhuguð í dag klukkan 17:00.

"Ég kom þessu af stað fyrir margt löngu síðan, en við ákvaðum endurvekja sýningarnar í byrjun þessa árs og taka þetta skrefinu lengra og erum nú með sýningar að jafnaði á hálfs mánaðar fresti en tókum gott sumar frí og byrjðum svo aftur nú í haust. Nú skráum við upplýsingar um hverja einustu mynd eins og berst verður á kosið með aðstoð gesta," segir Andrés.

Andrés segir myndasýningarnar njóta mikilla vinsælda, jafnt hjá ungum sem öldnum, en eldra fólkið hefur að sjálfsögðu mikið vægi á svona sýningum þegar kemur að greina eldri myndir.

"Við höldum sýningarnar í Tryggvabúð, félagsaðstöðu eldri borgara á Djúpavogi þar sem við vörpum myndum upp tjald með skjávarpa og skráum niður allar þær upplýsingar sem fram koma og geta hjálpað til við greiningu.

Þó svo við reynum að höfða mest til þeirra sem eldri eru hefur yngra fólkið einnig mjög gaman að þessu, þarna hefur það tækifæri til þess að fræðast um gamla tíma og jafnvel heyra skemmtisögur, jafnvel einstaka prakkarastrik frá fyrri tíma - í tengslum við myndasýningarnar geta því rifjast upp bæði skemmtilegar og fróðlegar sögur, t.d. um búsetuhætti og mannlíf sem annars hefðu fallið í gleymsku."

Andrés segir gríðarlegt magn til af gömlu myndefni sem tengist Djúpavogi og dreifbýlinu líka, bæði landslagsmyndum, úr atvinnulífinu og einstakar mannamyndir.

"Mest megnis hafa myndirnar sem til sýningar hafa verið komið úr einkasöfnum auk þess sem mikið magn er inni á á sarpi Ljósmyndasafns Íslands en þær myndir eru í eigu þjóðminjasafnsins svo sem úr safni Nicoline Weywadt sem var fyrsti atvinnu kvennljósmyndari landsins og einnig Hansínu Björnsdóttir fósturdóttur Nicolíne sem var einnig ljósmyndari á Teigarhorni.

Nicolíne útskrifaðist úr ljósmyndaskóla í Danmörku árið 1872 og rak ljósmyndastofu á Teigarhorni í Djúpavogi til 1920. Í þá daga var meðal annars notast við hnakkajárn við mannamyndatökur þar sem enginn mátti hreyfa sig meðan á tökum stóð, auk þess sem var gler á þakinu á ljósmyndahúsinu til þess að auka birtumagnið þar sem ekki var til flass í þá daga."

Andrés segist með tímanum gera sér betur grein fyrir því hversu mikið sögu- og menningarlegt gildi þessar gömlu ljósmyndir hafa og ljóst sé að þær hafi miklu mun meira gildi þegar búið er að merkja þær og skrá.

"Tíminn er fljótur að líða og það fennir ótrúlega fljótt yfir minningar hjá fólki og því mikilvægt að skrá upplýsingar með þessum hætti. Sjálfur er ég áhugaljósmyndari fram í fingurgóma og tek mikið af myndum og ég þarf stundum að hugsa mig dálítið um þegar ég skoða eldri myndir sem ég hef tekið.

En það er ekki ofsögum sagt að góð mynd segir oft meira en þúsund orð segir Andrés að lokum."




Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar