![](/images/stories/news/2015/ofaerd_screenshot.jpg)
Sérstakt að keyra út úr ferjunni á Seyðisfirði og enda úti í skafli á Siglufirði
Áætlað er að um helmingur þjóðarinnar hafi horft á fyrsta þátt spennuþáttaraðarinnar Ófærðar sem RÚV frumsýndi fyrir viku og viðtökurnar voru góðar. Þátturinn er að hluta til tekinn upp á Seyðisfirði.
Lík finnst í firðinum sama dag og ferjan frá Evrópu kemur til hafnar. Stormur skellur á og lokar leiðinni yfir heiðina, fyrir íbúum, aðstoð frá lögreglu, gestum og þar með morðingjanum.
Umhverfi sögunnar ber þannig sterkan keim af Seyðisfirði enda eru atriði með ferjunni Norrænu tekin upp þar. Aðrar útitökur eru hins vegar frá Siglufirði og það þótti sumum ruglandi.
Leikstjóri Ófærðar er Baltasar Kormákur og einkum Norðfirðingum þótti athyglivert að sjá bruna á húsi Síldarvinnslunnar, sem var notaður í mynd Baltasars Hafið, í upphafsatriði þáttanna. Eins og frægt er orðið brann þar meira en átti að brenna við tökurnar.
Enn aðrir bentu við hversu viðeigandi það væri að kolófært var til Seyðisfjarðar frumsýningardaginn.
Annar þáttur af tíu er á dagskrá RÚV klukkan 21:00 í kvöld. Austurfrétt tók saman nokkur af bestu viðbrögðunum sem snéru að austfirska hlutanum.