„Þetta er frábært framtak"

ad heiman og heimSýningin „Að heiman og heim" stendur nú yfir í Sláturhúsinu, en það eru SAM-félagið og Menningarmiðstöð Fljótdalshéraðs sem að henni standa.
SAM félagið grasrótarsamtök skapandi fólks á Austurlandi voru stofnuð formlega í tengslum við MAKE it happen, ráðstefnu um skapandi hugsun í lok september 2012.

Félagið er opið öllum sem hafa áhuga og velvild til framgangs skapandi greina. Menntun er ekki skilyrði en markmið félagsins er að efla þá sem vilja skapa sér atvinnu í skapandi greinum og eða vinna að skapandi verkefnum á Austurlandi.

Unnar Geir Unnarsson, forstöðumaður Menningarmiðstöðvarinnar segir tilgang sýningarinnar vera að kynna unga listamenn sem hafa sótt sér þekkingu og reynslu annað en kjósa að vinna að sinni list og hönnun í heimabyggð.

„Austurland þarf öfluga rödd fyrir framgang skapandi greina á svæðinu og markmið félagsins er að vera austfirskur hagsmunahópur sem vinnur meðal annars að því að skapa fleiri atvinnutækifæri fyrir listamenn og hönnuði. Félagið vill vekja athygli á hversu öflugt skapandi ferli getur verið til nýsköpunar í starfandi fyrirtækjum og sveitarfélögum og stofnunum hvers konar.

SAM félagið leggur aðaláherslu á að efla tengslanet innan og utan fjórðungs og fyrsta verkefnið verður að kortleggja skapandi samfélag á Austurlandi. Sendiherrar hafa verið útnefndir í hverju þorpi á Austurlandi og verður það þeirra hlutverk að kynna félagið fyrir skapandi fólki í sínu þorpi."

Fjögur verkefni eru á sýningunni. „Þetta er frábært framtak og mikilvægt að við séum meðvituð um það fjölbreyta starf sem listamenn og hönnuðir eru að vinna hér fyrir austan, en skapandi greinar eru ein af stoðum atvinnulífins en leggja einnig mikið til lífsgæða samfélagsins," segir Unnar Geir.

Jökla: Perla Sigurðardóttir
Kynning á lokaverkefni hennar í Grafískri Hönnun frá Myndlistarskólanum á Akureyri.

Leikhúsupplifun: Emelía Antonsdóttir Crivello
Kynning og sýning á myndbandsupptökum af lokaverkefni hennar frá Sviðshöfundabraut við Listaháskóla Íslands.

Hjólhestasmiðjan: Steinþór Hannes Gissurarson
Steinþór sýnir verkefni sem miðar að því að koma hjólum aftur í framleiðslu á Íslandi, en í þetta sinn er hönnunin einig íslensk. Við hönnunina hefur hann að leiðarljósi að gera falleg og einföld hjól og minnka viðhald eins og mögulegt er.

Miðbæjarskipulag/MakeOver hönnunarteymi: Anna María Þórhalsdóttir, Bylgja Lind Pétursdóttir og Steinrún Ótta Stefánsdóttir
Verkefnið gekk út á að ungir hönnuðir af svæðinu, í gegnum Make hönnunarteymi, fengu tækifæri til að endurhanna og koma með hugmyndir að breytingum að miðbæjarskipulagi Egilsstaða.

Markmið hópsins var ekki endilega að finna upp hjólið heldur að vinna með gildandi deiliskipulag sem hannað var af Arkís 2005-2007, einfalda það að hluta og gera það auðveldara í framkvæmd.

Niðurstaðan er ekki bindandi á neinn hátt en gefur nýjar hugmyndir fyrir áframhaldandi vinnu í miðbæjarskipulaginu.
Óskir hönnuða er að koma af stað umræðu um svæðið og hvað megi betur fara, sem og þrýsting á að bæjaryfirvöld hefji vinnuna.

Sýningin stendur til 30. nóvember og er opin alla virka daga milli klukkan 13:00 og 18:00. Allir eru velkomnir og enginn aðgangseyrir.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar