![](/images/stories/news/2015/bylgja_artist/bylgja10.jpg)
Sækir innblástur í Austurland
„Ég ætlaði alltaf að verða listamaður og hef teiknað og málað frá því ég var barn," segir listakonan Bylgja Lind Pétursdóttir sem búsett er á Egilsstöðum ásamt manni sínum Pétri Steini Guðmannssyni og syni þeirra, Þorvaldi Frosta Pétursyni.
Myndir Bylgju hafa vakið verðskuldaða athygli að undanförnu, en hún er útskrifuð af myndlistabraut Fjölbrautarskólans í Breiðholti með B.A próf í arkitektúr frá Listaháskóla Íslands.
Bylgja segir að eftir að hún lauk arkitektanáminu og flutti austur fann hún að áhugi hennar lá frekar í myndlistinni og byrjaði aftur að teikna og mála.
„Í upphafi var ætlunin þó aðeins að teikna myndir til að skreyta mitt eigið heimili, en eitt leiddi af öðru. Ég stofnaði Facebook-síðu og fékk fyrirspurnir um myndir og var það mér hvatning til þess að gera enn meira og betur. Eftirspurnin jókst og varð fjölbreyttari, ég hef til dæmis teiknað mynd á bókakápu, verkin mín hafa verið prentuð á púða og slæður hjá erlendu fyrirtæki.
Ég elska listina. Ef mér líður illa þá teikna ég mig út úr því, ef mér líður vel elska ég líka að teikna og mála. Ég teikna aðallega með blýanti og pennum og mála einnig með vatnslitum og olíulitum."
Nær betri einbeitingu fyrir austan
Bylgja segist vera búin að finna sinn stað í listinni.
„List getur verið alskonar, en ég finn að mín deild er að gera fallegar myndir sem fegra heiminn, ég er ekki pólitískur listamaður. Ég tengi mig við náttúruna og hlutleysið – vil að fólki líði eins og það sé statt aleitt í óbyggðum þegar það horfir á myndirnar mínar.
Mér finnst mjög gott að vinna að listinni hér fyrir austan, stutt í náttúruna og innblásturinn er allsstaðar, auk þess sem stressið er ekki eins mikið og í bænum og ég get einbeitt mér mun betur hér en þar."
Nóg að gera á komandi ári
Bylgja segir drauminn vera að geta unnið við listina að fullu, auk þess að kenna myndlist og hönnun með. Í dag er hún að taka kennararéttindin í fjarnámi frá Háskónaum á Akureyri og vinnur einnig við Handverks- og hússtjórnasskólann á Hallormsstað.
„Ég teikna ég og mála eins mikið og ég get, en hef ekki haft mikinn tíma að undanförnu, en það breytist vonandi í framtíðinni.
Ég er með nokkur verkefni sem að ég mun vinna að á næsta ári, til dæmis myndskreyta barnabók ásamt öðru.
Mig langar einnig að fara að mála stærri verk þar sem að ég er komin með fína aðstöðu til þess. Einnig að prufa mig áfram í því að prenta myndirnar mínar sjálf, til dæmis með silkiprenti – þannig að það er nóg að gera hjá mér á komandi ári."
Hægt er að hafa samband við Bylgju og fá frekari upplýsingar hér.