Gestum boðið í endurnýjað Gistihúsið
![IMG 0064 0043 web](/images/stories/news/2015/gistihus_egs/IMG_0064_0043_web.jpg)
Framkvæmdir við 1500 m2 viðbyggingu hófust í október 2013 og tekið var á móti gestum þar um miðjan júní í fyrra. Komin er ný móttaka, lyftuturnar og 32 herbergi. Síðast var útbúin heilsulind á neðstu hæðinni.
Elsti hluti gamla gistihússins er frá 1903 en byggt var aftur við það árið 1947. Hulda Daníelsdóttir og Gunnlaugur Jónsson keyptu það árið 1997 og hafa rekið það síðan.
Hulda segir sveitarómantíkina hafa verið hafða í huga við hönnun nýju herbergjanna. Þá voru nýttir hlutir úr gamla húsinu og fjósi sem brotið var niður við framkvæmdirnar til að skapa sérstakan anda í nýbyggingunni.
„Við notum til dæmis bárujárnið þaðan til að mynda ákveðinn þráð í gegn. Við lítum ekki á nýju herbergin sem neitt annað en ný herbergi en reynum samt að halda í ákveðna sveitarómantík.
Gömlu herbergin verða alltaf einstök. Sumir vilja ekki sjá neitt annað en þau."
Gunnlaugur segir að með nýju herbergjunum skapist sterkari rekstrargrundvöllur. Áfram verður unnið í aukningu vetrarferðamennsku.
„Herbergin selja sig sjálf á sumrin en við vinnum í að búa til pakka til að fá fólk á öðrum árstímum. Það hefur orðið mikil aukning á litlu yfir vetrarmánuðina en við viljum meira."
Hulda og Gunnlaugur buðu gestum nýverið að skoða Gistihúsið eftir endurbæturnar og Austurfrétt leit í heimsókn.
![IMG 0069 0046 web](/images/stories/news/2015/gistihus_egs/IMG_0069_0046_web.jpg)
![IMG 0071 0048 web](/images/stories/news/2015/gistihus_egs/IMG_0071_0048_web.jpg)
![IMG 0072 0049 web](/images/stories/news/2015/gistihus_egs/IMG_0072_0049_web.jpg)
![IMG 0074 0051 web](/images/stories/news/2015/gistihus_egs/IMG_0074_0051_web.jpg)