„Hugmyndin að nafnasamkeppninni kviknaði í kjölfar breytinganna"

adda steinaNafnasamkeppni stendur nú yfir um nýtt nafn á Vegahúsið, ungmennamiðstöðina á Egilsstöðum.

Ungmennamiðstöðin (Vegahúsið) er upplýsinga- og tómstundamiðstöð fyrir ungmenni, 16 ára og eldri, en hún er staðsett í Sláturhúsinu á Egilsstöðum.

„Við fórum að huga að breytingum á starfseminni í ár og var markmiðið að auka þátttökuna og aðlaga hana meira að þörfum ungmenna, sextán ára og eldri. Við höfum unnið að því í við ungmennaráð sveitafélagsins, nemendafélag menntaskólans og aðrar ungmennamiðstöðvar á landinu," segir Adda Steina Haraldsdóttir, íþrótta- og tómstundafulltrúi Fljótsdalshéraðs.

Við höfum séð að þessi aldurshópur þarf frekar aðstoð og aðstöðu hópa, verkefni, klúbba og smiðjur, heldur en opið hús. Við drógum því úr almennri opnun en fjölduðum viðburðum á móti, bættum aðstöðu til tónlistariðkunar, höfum verið með listasmiðjur, fræðslu og fleira. Einnig bjóðum við upp á viðburði og sértækt hópastarf utan opnunartíma eftir samkomulagi.

Starfsfólkið okkar hefur víða og ólíka þekkingu og ættum við þess vegna að geta aðstoðað ungmennin við sköpun og tómstundiðkun á mörgum sviðum, sem og að veita aðstöðu fyrir þá sem vilja gera slíkt á eigin spýtur.

Stefna ungmennamiðstöðvarinnar er að líkjast starfsemi Hins Hússins í Reykjavík, Rósenberg á Akureyri og sambærilegum ungmennamiðstöðvum, og aðlaga það þörfum ungmenna hér á svæðinu," segir Adda Steina.

Adda Steina segir að hugmyndin að nafnabreytingunni hafi kviknað í kjölfar breytinganna.

„Sú hugmynd kviknaði að breyta um nafn og var málið tekið fyrir á fundi hjá ungmennaráði Fljótsdalshéraðs. Fulltrúarnir voru því samþykkir og ákváðu að nafnasamkeppni væri besta leiðin til að gera það, en þeir fara svo yfir innsendar tillögurnar á fundi hjá sér á mánudaginn.

Við bjóðum 10.000 krónur fyrir besta nafnið. Við hvetjum alla til þess að senda inn tillögur að nafni á facebook-síðu Vegahússins og fylgjast þar með framgangi mála."




Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar