Bæjarstjóri í þriðjudagsspjalli í Dahlshúsi
Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar, mætir í þriðjudagsspjall íbúasamtakana á Eskifirði í Dahlshúsi í kvöld.Íbúasamtökin á Eskifirði hafa verið með opið hús í Dahlshúsi á þriðjudagskvöldum í vetur. Kristinn Þór Jónasson, formaður samtakanna, segir fundina hafa gengið vel og aðsóknin hafi verið ágæt.
„Það er alltaf meiri mæting þegar við fáum bæjarfulltrúa eða aðra úr bæjarmálnum til þess að mæta og spjalla við íbúana.
Þarna eru menn að spjalla um allt og ekkert – daginn og veginn, bæjarmálin og mannlífið. Þau málefni sem hafa brunnið á fólki síðustu vikur er til dæmis ósk bæjarbúa um hringtorg við nýju gatnamótin við nýja veginn að Norðfjarðargöngum, framkvæmdir við ofanflóðarvarnir, hugmyndir hóps um jarðgöng undir Eskifjarðarheiði, endurvakning jólatrésskemmtunar sem verður 28. desember, afmæli Eskifjarðar á næsta ári og fleira.
Fundurinn í kvöld verður sá næst-síðasti fyrir jól en svo tökum við upp þráðinn eftir áramót. Ég hvet alla til þess að mæta í Dahlshús klukkan átta í kvöld og spjalla við bæjarstjórann okkar. Það er alltaf heitt á könnunni og eitthvað bakkelsi," segir Kristinn Þór.