Metár í síldarfrystingu hjá Skinney-Þinganes
Síldveiðar í haust gengu með afbrigðum vel hjá Skinney-Þinganes á Hornafirði, þótt langt hafi verið að sækja síldina, en eins og kunnugt er hefur hún haldið sig í Grundarfirði.Þetta kemur fram á vefsíðu Skinneyjar-Þinganes
Skipin þrjú, Jóna Eðvalds, Krossey og Áskell hafa veitt síldina jafnt og þétt þannig að varla hefur fallið úr dagur í framleiðslunni í landi og má segja að síldarvinnsla hafi verið stanlaust í gangi frá byrjun október fram yfir miðjan desember. Unnið hefur verið á 12 tíma vöktum við vinnsluna. Á árinu 2007 voru fryst yfir tíu þúsund tonn af síldarafurðum hjá félaginu, sem er metár í síldarfrystingu. Á árinu var tekið á móti yfir 30 þúsund tonnum af Íslandssíld til manneldisvinnslu hjá félaginu, en aldrei hefur meira af Íslandssíld verið landað til vinnslu á Höfn á einu ári. Auk þessa hefur talsvert af síld borist til fiskimjölsverksmiðjunnar á Höfn þannig að heildaraflinn er mun meiri. Skipin fóru til síldveiða á ný í byrjun árs og hefur gengið vel sem af er. Gert er ráð fyirir að síldveiðum verði lokið um miðjan janúar.
Mynd: Jóna Eðvalds SF-200 við bryggju.