„Við erum mjög ánægð með að hafa farið yfir hundrað stigin"
Fjarðabyggð tryggði sér sæti í átta liða úrslitum Útsvars þegar liðið sigraði Strandabyggð á föstudagskvöldið.Fjarðabyggð sigraði með töluverðum mun, en liðið landaði 103 stigum á móti 67 stigum Strandabyggðar.
Sem fyrr voru það þau Davíð Þór Jónsson, Hákon Ásgrímsson og Heiða Dögg Liljudóttir sem sátu fyrir svörum.
„Við erum mjög ánægð með að hafa farið yfir hundrað stigin og þá bætt metið okkar, sem var 97 stig," segir Heiða Dögg.
„Mér þykir sérstaklega skemmtilegt að fá að taka þátt í þessu og innan liðsins ríkir góður andi og við bætum hvort annað upp. Það er ekki leiðinlegt að fara inn í jólin með þessi úrslit."
Enn eru fimm viðureignir eftir í sextán liða úrslitunum og ræðst því ekki strax hverjir andstæðingar Fjarðabyggðar verða í átta liða rimmunni.