Heimamenn fælast stranga skilmála

Strangir útboðsskilmálar Landsvirkjunar vegna útboðs á rekstri mötuneytis og ræstinga í Fljótsdalsstöð hafa fælt heimamenn frá því að bjóða í verkin. Þetta segir oddviti Fljótsdalshrepps. Talsmaður Landsvirkjunar segir skilyrðin í samræmi við gæðastefnu fyrirtækisins. Útboðin verða opnuð á morgun.


Útboð vegna mötuneytis og ræstinga í Fljótsdalsstöð verða opnuð á morgun. Mynd: GG
„Fitumiklar kjötvörur skulu ekki notaðar, frekar hreinir vöðvar. Bjóða skal upp á fiskflök en ekki fiskibollur og fiskbúðing,“ segir í útboðsgögnum Landsvirkjunar. Þetta ákvæði er meðal þeirra sem komið hafa spánskt fyrir sjónir nágranna stöðvarinnar.

„Ég veit um heimamenn sem tóku gögn en ég á síður von á að það komi tilboð frá þeim aðilum,“ segir Gunnþórunn Ingólfsdóttir, oddviti Fljótsdalshrepps. „Ég held frekar að útboðsskilmálarnir í heild hafi fælt þá frá. Það eru miklar kröfur gerðar varðandi ýmsa staðla og ekki einfalt fyrir þá sem hafa ekki komið að svona málum áður að setja fram raunhæft tilboð. Slíkt er tæpast hægt nema kaupa þjónustu aðila með sérþekkingu í að útbúa tilboð, það kostar sitt. Það þarf einnig að leggja til stofnkostnað , tæki og tól sem fólki kann að vaxa í augum.“

Flókið ferli fyrir fá störf

Henni finnst furðulegt að Landsvirkjun skuli hafa valið útboðsleiðina fyrir fá störf. „Mér persónulega finnst ótrúlegt að það hafi þurft að bjóða þetta út með þessum hætti. Raunverulega snýst málið um mjög fá störf. Þetta eru viss vonbrigði að Landsvirkjun skuli hafa valið að fara þessa leið, í stað þess að ráða fólk til starfa og að auki að velja að bjóða ræstingu stöðvarhúss og mötuneytisrekstur út í einu lagi.“

Gunnþórunn segir mikilvægt fyrir utanaðkomandi aðila að reikna ferðalög starfsmanna inn í tilboðin. „Það er engin aðstaða í þjónustuhúsinu fyrir mötuneytis- eða þrifafólk hvað varðar gistingu og raunverulega verður aðbúnaður þessara aðila ekki merkilegur.“

Skilmálarnir sambærilegir við önnur útboð

Þorsteinn Hilmarsson, upplýsingafulltrúi Landsvirkjunar, sagðist undrandi á viðbrögðum heimamanna þegar Austurglugginn bar þær undir hann. „ Við vitum ekki til þess að einhverjir í nágrenninu eða annars staðar  hafi hætt við að gera tilboð en tilboðin koma auðvitað ekki í ljós fyrr en við opnun þeirra. Lýsingarnar á matarræðinu í útboðsgögnunum  miða að hollustu, fjölbreytni og gæðum.  Lýsingarnar eru samdar af næringarfræðingi sem unnið hefur að útboðsgerð fyrir fleiri en Landvirkjun og þær eru sambærilegar við alvanalegar  lýsingar  sem notaðar hafa verið í útboðum á mötuneytisrekstri, til dæmis útboðum Ríkiskaupa.“

Matarást í Landsvirkjun

Þorsteinn bendir á að Landsvirkjun sé margverðlaunað fyrirtæki á landsvísu fyrir vandaðan og metnaðarfullan rekstur þar sem sérstaklega sé vel staðið að málum sem snerta starfsmenn.

„Við könnumst ekki við að  neinar vöbblur séu á starfsmönnum í Fljótsdal út af matarræðinu eins og  því er lýst í útboðsgögnunum.  Matarást starfsmanna á mötuneytisfólki innan  Landsvirkjunar er við brugðið, enda er okkur búinn einstaklega góður kostur.“

Hann segir að ef starfsmenn sakni sveitamatarins geti þeir bætt sér það upp heima hjá sér. „Það má heldur ekki gleyma því að starfsmennirnir í Fljótsdal fara almennt heim til sín í kvöldmat og geta þar  bætt sér  upp mataræðið í hádegisverðinum ef eitthvað vantar á „sveitasæluna“.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar