Austurland á lista Telegraph yfir bestu áfangastaðina 2016

Austurland er einn af 20 áfangastöðum sem rata á lista breska dagblaðsins Daily Telegraph yfir bestu staðina til að heimsækja á næsta ári.

Það er beint flug ferðaskrifstofunnar Discover the World sem opnar aðgengið að Austurlandi og þar með heimi lítt kannaðra náttúruundra að mati blaðsins.

Áhugasömum er bent á gönguferðir í litríkum fjöllum Borgarfjarðar, svo sem Stórurð, þar sem feta megi í fótspor álfana.

Seyðisfjörður sé staður heimsborgaranna þar sem tekið sé á móti gestum eins og heimamönnum og dást megi að timburhúsum í sterkum litum og heimsækja hljóðlistaverk.

Syðst í fjórðungnum sé kjörið að skoða Djúpavog þar sem sjófuglar og endur séu langt um fleiri heldur en íbúar og gestir.

Í franska bænum Fáskrúðsfirði sé hægt að komast í ferska fiskrétti og kynnast útgerðarsögunni og skoða fossa eins og Flugufoss.

Síðast en ekki síst opna Austfirðir bakdyr að hálendi Íslands þar sem boðið sé upp á jeppaferðir til að skoða íshellana í Kverkfjöllum eða fara upp á Vatnajökul til að dást að útsýninu.

Fjöldi heillandi staða er á lista Telegraph svo sem Síberíuhraðlestin, Perú, pílagrímaganga í Róm, japanska eyjan Hokkaido, sigling meðfram strandlengju Ástralíu og þjóðgarðar Bandaríkjanna.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar