Aðalsteinn og Ólavía hlutu viðurkenningu Framfarafélags Fljótsdalshéraðs
Hjónin Aðalsteinn Ingi Jónsson og Ólavía Sigmarsdóttir, jafnan kennd við Klaustursel á Jökuldal, hlutu nýverið viðurkenningu Framfarafélags Fljótsdalshéraðs „Frumkvæði til framfara“ sem veitt var á aðalfundi félagsins fyrir skemmstu.Viðurkenninguna fá þau fyrir atvinnuuppbyggingu í sveit með landbúnaðar- og menningartengdri ferðaþjónustu, skapandi handverki og hreindýrasetri á Skjöldólfsstöðum.
Í umsögn segir að hjónin séu bæði dugnaðarforkar, hugmyndarík og samhent í búskapnum hvort sem í hlut hafi átt hefðbundin sauðfjárrækt, heimilisdýragarður, myndarlegur veitinga- og hótelrekstur í gamla skólahúsnæðinu á Skjöldólfsstöðum og leiðsögn á hreindýraveiðum eða nýting afurða dýranna en Ólavía er landsþekkt fyrir hannyrðir úr hreindýraskinni.
Þá hefur Aðalsteinn verið virkur í félagsmálum bænda, meðal annars sem formaður Búnaðarsambands Austurlands og síðar formaður Landssamtaka sauðfjárbænda.
Dómnefnd skipuðu Vigfús Ingvar Ingvarsson, Guðfinna Harpa Árnadóttir og Ágúst Arnórsson, útibússtjóri Landsbankans á Egilsstöðum sem er styrktaraðili viðurkenningarinnar.
Aðalsteinn með viðurkenninguna ásamt Þórarni Lárussyni, formanni félagsins og Margréti Árnadóttir, gjaldkera.