Aðeins heimsstyrjaldir, stórhríð og Covid hindrað þorrablót á Reyðarfirði

Reyðfirðingar fögnuðu því á bóndadag að þar var haldið 100. Þorrablót staðarins. Talið er að fyrsta blótið hafi verið haldið árið 1918. Á löngum tíma hafa orðið til mislífsseigar hefðir.

Heimildir benda til þess að fyrsta þorrablót Reyðfirðinga hafi verið haldið árið 1918. Líklega að undirlagi Þorsteins Jónssonar, sem þá var nýtekinn við sem kaupfélagsstjóri Kaupfélags Héraðsbúa, en félagið var þá með mest af sinni starfsemi á Reyðarfirði.

Síðan þá virðist blótið örsjaldan hafa fallið niður. Slíkt gerðist í seinni heimsstyrjöldinni, breski herinn, og síðar sá bandaríski, hafði þá bækistöð í bænum og einhvern tíma setti óveðrið strik í reikninginn. Þá féll blótið niður 2021 og 22 vegna Covid-faraldursins.

„Saga þorrablóts Reyðarfjarðar er rituð í gerðabækur frá árinu 1936. Við höfum verið að glugga í þær. Það virðist haldið blót, sama á hverju gengur. Það er talað um óveður og ófærð þannig að sveitirnar komast ekki á blót en það er samt haldið,“ segir Aðalheiður Vilbergsdóttir sem leiddi nefndina í ár í nýjasta tölublaði Austurgluggans.

Í gegnum tíðina hefur þorrablótið færst úr stað. Líklega var það fyrst haldið á efri hæð gamla barnaskólans, sem síðast þjónaði sem félagsmiðstöð. Félagsheimili Reyðfirðinga, Félagslundur, var vígt árið 1955 og fyrsta þorrablótið þar var trúlega 1956. Félagslundur virðist hafa hýst þorrablótin í akkúrat 50 ár, því árið 2007 var blótað í gamla íþróttahúsinu.

Í gerðabókunum má finna heimildir um ýmsa siði og venjur þorrablóts Reyðfirðinga. Fram til 1980 tíðkaðist að presturinn, læknirinn og sýslumaðurinn fengju boðsmiða á blótið. Lengi voru lesnar upp aflatölur og árið 1977 var Guðjón Þórarinsson útnefndur maður ársins – þótt ekki sé lengur munað út af hverju þegar það er fært til bókar ekki löngu síðar!

Ein hefð sem lengi hefur lifað eru kveðjur frá þeim sem ekki komust á blótið. Gjarnan voru orðsendingarnar kómískar eða með vísum. Í gögnum þorrablóts Reyðfirðinga eru gömul símskeyti, meðal annars frá áhöfninni á Snæfuglinum sem var úti á sjó þegar blótið var haldið.

„Eitt sinn kom hnellin vísa frá vaktinni í bræðslunni. Hún þurfti að vera að vinna, komst ekki á blót og fannst það frekar súrt,“ segir Aðalheiður.

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum sem kom út í vikunni. Hægt er að panta áskrift hér.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.