Ætlar að brosa í sumar
Eigandi stærsta ferðaþjónustufyrirtækis á Austurlandi reiknar með því að sumarið verði stutt, sérstakt en jafnframt skemmtilegt. Hann hvetur Íslendinga til að nýta hóteltilboð sem munu aldrei sjást aftur með sama hætti og segir að Austfirðingar þurfi að einsetja sér að taka vel á móti gestum og skemmta sjálfum sér um leið.
Þráinn Lárusson er stjórnarformaður og eigandi 701 hotels ehf. sem á og rekur Hótel Hallormsstað og Hótel Valaskjálf auk veitingastaða á borð við Skálinn Diner og Salt á Egilsstöðum. Hann segir að Covid-19 faraldurinn hafi eðlilega komið illa við rekstur fyrirtækisins, en að nú sé stefnan tekin á að gera gott úr sumrinu, sem eigi að geta verið ágætt í ferðaþjónustu á Austurlandi þó það verði stutt.
Ferðast eftir veðurfrásögnum
„Sumarið verður mjög sérstakt. Það verður stutt, þetta verður júlí og fram yfir Verslunarmannahelgi, bara gamla sumarið eins og það var hérna einu sinni. Ég held að ef við tölum um Austurlandið í heild sinni þá eigum við gríðarlega möguleika í sumar. Við erum jú það lengsta sem maður kemst frá Reykjavík og fyrir hinn almenna ferðamann, fjölskyldufólkið, þá er þetta ferðalagið sem liggur beint við.
Ég held, eftir að hafa verið að fylgjast mjög vel með á samfélagsmiðlum og þar sem fólk er að ræða saman, að Austurland eigi jafnvel eftir að verða heitasti áfangastaðurinn. Kollegar mínir á Suðurlandinu, þeir fá held ég ekki sumarið en þeir gætu fengið haustið. Reykvíkingar munu mögulega sækja í nærumhverfi sitt í styttri ferðir þegar líður á ágúst.
En auðvitað mun það fara eftir veðri og við þurfum að passa okkur á því og vera mjög meðvituð um það. Ég hef oft sagt að 90-95% fólks hlusti aldrei á Veðurstofu Íslands heldur bara á það sem það heyrir svona í framhjáhlaupi. Að fólk ferðist ekki eftir veðrinu í raun heldur eftir veðurfrásögnum, og oft þá af misgáfulegum miðlum.“
Tilboð sem aldrei munu sjást aftur
Þráinn segir að í sumar muni Íslendingum gefast tækifæri sem muni ekki gefast aftur með sama hætti.
„Ég myndi segja að Íslendingar ættu að nýta sér þau tilboð sem nú er verið að bjóða á hótelum um allt land. Það hefur orðið feykilega mikil uppbygging víða og í þessu árferði er hægt að gista á þessum stöðum fyrir verð sem ég get fullyrt að munu aldrei sjást aftur. Ég hef auðvitað orðið var við umræðuna, hvers vegna allt í einu núna sé hægt að lækka verðin og að hótelin séu bara að okra á þessu alla jafnan. En þetta er í raun einfalt. Langstærsti kostnaðarliður í hótelrekstri er að greiða niður fjármögnunina. Núna hafa bankarnir einfaldlega fryst þessi lán, sem var bara nauðsynlegt í ljósi stöðunnar, og það þýðir að hægt er að bjóða mun lægri verð en hafa áður sést og munu sjást í framtíðinni.“
Sameiginlegt verkefni
Í ljósi þessa stutta ferðamannatímabils sem framundan er, og þegar tekið er tillit til spádóma um vinsældir Austurlands hjá Íslendingum í sumar, má búast við að það geti orðið töluvert mikil traffík á svæðinu. Þráinn segir afar mikilvægt að Austfirðingar sýni því skilning að hér gæti orðið mikið að gera.
„Við þurfum að standa saman, bara fyrir samfélagið hérna á svæðinu. Það er ofboðslega mikið undir að þetta gangi vel og að upplifun þessa fólks sem nú heimsækir okkur verði sem best. Orðspor svæðisins sem áfangastaðar getur staðið og fallið með því hvernig við höldum á málum. Ég hef nú sagt það að ef meira að segja fýlupúki eins og ég ætla að brosa og bjóða góðan daginn, þá hljóti allir að geta það! Þetta verður mjög sérstakt næstu mánuði hérna hjá okkur, en ef við höldum öll vel á spilunum þá verður þetta skemmtilegt sumar. Mikið fjör og mikið grín.“
Hugsa líka til heimafólks
Þráinn segir þau hjá 701 hotels vera meðvituð um að þau verði líka að vera til staðar fyrir heimafólk. Það hafi þau viljað gera í gegnum Covid-19 þrengingarnar og vilji sömuleiðis gera það nú í sumar.
„Þegar þetta ástand kom upp lokuðum við Valaskjálf og Glóð. Við tókum hins vegar ákvörðun um að halda bæði Salti og Dinernum opnum, þó svo við gerðum okkur grein fyrir því að þessir tveir staðir myndu aldrei standa undir sjálfum sér á þessum tíma. Ég leit svo á að þessir tveir staðir væru mjög áberandi í bæjarmyndinni og lífinu hér á Egilsstöðum. Það gæti því verið mjög slæmt að loka þeim, bara fyrir ímynd bæjarins og okkur íbúana. Þetta væri ekki gott fyrir sálartetrið. Þannig að við héldum þeim opnum og lögðum aukna áherslu á „take away“ og heimsendingar.
Þessar vikur liðu og maður fann alveg að Egilsstaðabúar stóðu sig gríðarlega vel í að hlýða Víði því það var bara enginn á ferli. Við pössuðum okkur gríðarlega vel hérna fyrir austan og það fannst mér æðislegt, enda sýna tölurnar það hvað við stóðum okkur vel. Það byrjaði svo að lifna yfir þessu fyrir mánaðamótin síðustu, en það er bara heimamarkaðurinn.
Þetta hafa auðvitað verið mjög erfiðir mánuðir en við höfum líka notað tímann og planað ýmislegt skemmtilegt fyrir sumarið, bæði fyrir ferðafólk en svo líka fyrir nærumhverfið.“
Götugrill og góð stemming
Eitt af því nýja sem boðið verður upp á er svonefnt götugrill. Þau verða við Valaskjálf og kokkarnir fara út á pallinn, grilla og fólk getur komið, greitt eitt verð og borðað svo af grillinu og meðlæti eins og hver getur í sig látið. Fyrsta götugrillið verður í dag og svo á völdum dagsetningum út sumarið. Sömuleiðis stendur til að bjóða upp á skógargrill, sem verða í svipuðum anda en haldin á Hallormstað.
„Við megum nefnilega ekki gleyma heimamarkaðnum. Þó það sé mikilvægt að taka vel á móti gestum megum við ekki gleyma því að það er fólk hér á svæðinu sem vill gera skemmtilega hluti og njóta lífsins saman. Við viljum koma til móts við það og sinna þeim markaði.“