
„Ætlum að sjálfsögðu að gera okkar allra besta“
„Bekkjakerfið heillar mig auk þess sem mér finnst MA spennandi skóli,“ segir Djúpavogsbúinn Ragnar Sigurður Kristjánsson, sem keppir í kvöld fyrir hönd Menntaskólans á Akureyri í undanúrslitum Gettu betur.Þetta annað árið í röð sem Ragnar er í liðinu, en hann útskrifast úr skólanum í vor. Auk Ragnars skipa liðið þau Sölvi Halldórsson og Sabrina Rosazza, en hún bjó einnig á Djúpavogi um tíma.
Í kvöld mæta þau liði Fjölbrautarskólans í Garðabæ. MA komst einnig í undanúrslit í fyrra þar sem það tapaði fyrir liði Kvennaskólans sem vann keppnina. Liðið vann keppnina síðast árið 2006.
„Ég hef alltaf haft gaman af spurningakeppnum og að taka þátt í þeim sjálfur. Mitt sérsvið má kannski segja að sé á íslenskri sögu, landafræði og stjórmálum. Andinn í liðinu er mjög góður og höfum við verið að æfa öllum stundum síðustu viku. Við erum að mæta mjög sterku liði í kvöld en ætlum að sjálfsögðu að gera okkar allra besta,“ segir Ragnar sem hvetur alla að vera rétt stillta klukkan 20:15.