Ævintýragjarnir flugkappar lentu á Egilsstöðum – Myndir

Ævintýragjarnir flugkappar á fimm flugvélum og þyrlu lentu á Egilsstaðaflugvelli laust fyrir klukkan þrjú í dag. Ferð hópsins er heitið frá Bretlandi til Norður-Ameríku, í gegnum Ísland, Færeyjar og Grænland í kjölfar ferjuflugmanna úr seinna stríði. Flugmennirnir eru líka í keppni sín á milli.

Hópurinn fór frá Wick í Skotlandi í gær til Orkneyja og þaðan áfram í morgun til Vága í Færeyjum áður en stefnan var sett á Egilsstaði.

„Flugið hefur verið gott. Við lentum á Orkneyjum á lítilli en fallegri flugbraut og flugum síðan til Færeyja í dásamlegu sólskini, sem við vitum að er ekki alltaf reyndin.

Tvö lið sáu vali á leiðinni frá Færeyjum og þyrluhópurinn gat leyft sér að fara niður að sjónum til að skoða hann betur,“ segir Sam Rutherford, leiðangursstjóri.

Gefa sér rúman tíma

Gert er ráð fyrir að hópurinn haldi áfram suður til Reykjavíkur á morgun en Sam segir að hópurinn ætli að njóta þess að skoða litlar flugbrautir á leiðinni sem og njóta landslagsins.

Frá Reykjavík verður flogið áfram til Ísafjarðar og síðan til Kulusuk á Grænlandi. Komið verður við á nokkrum stöðum þarlendis áður en áfram verður haldið til Kanada og endað í inúítabæ á stæð við Egilsstaði sem heitir Kuujjuaq.

Áætlað er að þetta ferðalag taki tvær vikur en í góðu veðri er það rúmur tími. „Við vitum að veðrið er ekki alltaf eins og það er í dag yfir Norður-Atlantshafinu. Þess vegna er betra að hafa svigrúm í áætluninni ef þokan leggst yfir,“ segir Sam.

Keppa um að lenda og taka á loft á sem stystri vegalengd

Leiðangurinn er farinn undir merkjum Greenland Air Trophy en ekki er um að ræða keppni sem gengur út á að vera fyrstur áfangastað. Með því að fylgjast að í hóp geta flugvélarnar náð á áfangastaði sem varasamt er að fljúga á einn.

Keppnin er þess í stað kynnt sem nyrsta STOL keppni veraldar. STOL stendur fyrir „short takeoff and landing“ en þar gildir að þurfa sem stysta vegalengd til að lenda og taka á loft. Vegalengdin úr þessum aðgerðum er lögð saman og sá sem notar fæsta metra vinnur. Það verður gert á flugvellinum í Narsarsuaq á Grænlandi, á sunnudag samkvæmt áætlunum.

Einnig eru veitt verðlaun fyrir besta keppnisandann. Öll liðin í keppninni kjósa sín á milli um þann sem þykir hafa sýnt af sér mesta hjálpsemi og gert mest til að tryggja góðan anda meðal flugfólksins. „Þetta snýst mest um að vinna saman til að ná sameiginlegu markmiði,“ útskýrir Sam.

Ferjuflugleið úr seinna stríðið

En ferðin er líka er farin til að minnast afreka úr síðari heimsstyrjöldinni. Leiðin er sú sama og flugmenn fóru til að ferja vélar sem framleiddar voru í Bandaríkjunum til Bretlands þaðan sem þær voru sendar í stríðið í Evrópu. Ekki spillir að koma við á flugvöllum eins og í Wick, Vágum, Reykjavík og víðar sem byggðir voru fyrir stríðið.

„Þeir sem taka þátt í leiðangrinum gera það fyrst og fremst í ævintýraleit, að reyna sig við erfiðari leið er öruggara í hóp heldur en einn. Þetta snýst ekki bara um keppnina heldur náttúruna, söguna og menninguna sem við upplifum.

Á næsta ári verða liðin 75 ár frá lokum styrjaldarinnar og að fara þessa leið minnir okkur hvað flugmenn lögðu á sig í eldri vélum með minni búnað við erfiðari aðstæður. Það er gaman að fara á þessa staði sem hafa tengingu við hersöguna en þetta snýst um að gera eitthvað öðruvísi og skemmta sér,“ segir Sam.

Vonast til að koma árlega

Liðin sem komu til Egilsstaða eru meðal annars frá Sviss, Bretlandi, Hollandi, Frakklandi og Belgíu en von er á að fleiri lið bætist við bæði í Reykjavík og Grænlandi. Stefnt er á því að flugið verði að árlegum viðburði.

„Þetta er í fyrsta skipti sem við förum þessa leið. Að hluta til er það til að kanna hana, að vita að allt virki. Við viljum frekar að eitthvað komi okkur á óvart nú en næsta ári. Við vonumst til að geta gert þetta að árlegum viðburði þannig að vonandi sjáumst við aftur í júní 2020 með enn fleiri flugvélar,“ segir Sam.

Air Trophy Juni19 0003 Web
Air Trophy Juni19 0008 Web
Air Trophy Juni19 0011 Web
Air Trophy Juni19 0013 Web
Air Trophy Juni19 0014 Web
Air Trophy Juni19 0017 Web
Air Trophy Juni19 0021 Web
Air Trophy Juni19 0025 Web
Air Trophy Juni19 0036 Web
Air Trophy Juni19 0041 Web
Air Trophy Juni19 0046 Web
Air Trophy Juni19 0050 Web
Air Trophy Juni19 0051 Web
Air Trophy Juni19 0054 Web
Air Trophy Juni19 0058 Web
Air Trophy Juni19 0031 Web

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar