Orkumálinn 2024

Afar góðar viðtökur við Smáheimasýningunni á Vopnafirði

„Ég er sannarlega ánægð með sýninguna og viðtökur fólksins hér í bænum,“ segir Sigrún Lára Shanko, listamaður, en sýningin Smáheimar íslenskra þjóðsagna var opnuð um liðna helgi.

Sýningin samanstendur af tíu þrívíddarverkum sem sýna brot úr tíu velþekktum íslenskum þjóðsögum en verkin er samstarfsverkefni allnokkurra heimamanna undir stjórn Sigrúnar. Austurglugginn fjallaði um aðdragandann og gerð verkanna í októbermánuði en stóra hugmyndin sú að kveikja áhuga yngra fólks á þeim fjársjóði sem íslensku þjóðsögurnar eru.

Enginn þátttakandi hafði nokkra reynslu af gerð slíkra verka þegar lagt var í verkefnið sem var styrkt af Vopnafjarðarbæ, Austurbrú, Hirðfíflunum og Steiney en verkin eru að öllu leyti gerð úr náttúrulegum og eða endurunnum efnum.

Góð aðsókn var á opnunina í Kaupvangi á sunnudaginn var en samhliða Smáheimasýningunni var jafnframt sýning á gömlum leikföngum frá fólki í firðinum. Sýningin verður opin gestum um helgar fram til jóla hið minnsta og mögulega lengur.

Sigrún gælir enn við að geta farið með verkin víðar í framhaldinu en ekkert er ákveðið í þeim efnum.

„Það væri mjög gaman að geta sýnt á Egilsstöðum til dæmis eða á fjörðunum en við höfum ekki enn gefið okkur tíma til að fara í þau mál. En það væri gaman að geta sýnt sem víðast.“

Samhliða opnun sýningarinnar hefur Sigrún opnað vefinn smaheimar.com tileinkaðan verkunum þar sem sjá má fjölda ljósmynda sem Dagný Steindórsdóttir hefur tekið.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.