![](/images/stories/news/2016/daegurlagadraumar_web.jpg)
Aftur kominn tími Dægurlagadrauma: Tvennir tónleikar í vikunni
Hljómsveitin Dægurlagadraumar hyggur á tónleika á Austurlandi fimmta sumarið í röð. Sveitin er skipuð sex Austfirðingum sem spila íslensk dægurlög frá miðri síðustu öld.
Í sveitinni syngja Bjarni Freyr Ágústsson og Erla Dóra Vogler en aðrir eru Þórður Sigurðsson hljómborðs- og harmónikkuleikari, Garðar Eðvaldsson saxófónleikari, Þorlákur Ægir Ágústsson bassaleikari og Jón Hilmar Kárason gítarleikari.
Á efnisskránni eru fjölbreytt íslensk dægurlög sem flestir ættu að þekkja og voru vinsæl með Hauki Morthens, Ellý Vilhjálms, Helenu Eyjólfs og fleiri söngstjörnum.
Húmorinn er aldrei langt undan á tónleikum og ýtt er undir stemmingunni með klæðnaði sveitarinnar sem sækir í tísku þessa tíma: mittislindar, slaufur og mikil undirpils.
Sveitin hefur undanfarin sumur farið víða um Austurland. Að þessu sinni verður spilað í Sláturhúsinu á Egilsstöðum klukkan 20:00 á miðvikudag og Karlsstöðum í Berufirði sólarhring síðar.