Ágóðinn af fermingarskeytunum nýttur til góðs
Kvenfélagið Nanna í Neskaupstað var stofnað árið 1907 og er tilgangur þess að styðja við velferðamál í þágu bæjarins. Elsta fjáröflunarleið þeirra er sala á fermingarskeytum. En vegna Covid-19 faraldursins verður ekkert skeytunum í vor en Kvenfélagið mun fara af stað með þau þegar nær dregur fermingum í haust.
„Þetta er 113 ára gamalt félag og elsta starfandi félag í Neskaupstað í dag. Það má gera ráð fyrir að þessi hefð hafi alltaf verið helsta fjáröflun kvenfélagsins frá því að fermingar hófust.“
„Skeytin hafa verið okkar helsta fjáröflun í marga tugi ára. Við höfum gert það með þeim hætti að fyrirtæki og almenningur hafa styrkt okkur með kaupum á fermingarskeytum til fermingarbarna og svo notum við ágóðann til að góðra verka og eins og við erum vanar að gera í kvenfélaginu hér í Neskaupstað,“ segir Helga Steinsson formaður Kvenfélagsins Nönnu.
Hún segir að starf þeirra sé bundið við Neskaupstað þó hann sé hluti af Fjarðabyggð. Það eru fleiri og ólík kvenfélög innan sveitarfélagsins.
Breytt staða í dag
Starf kvenfélagsins þróast eins samfélagið sem það tilheyrir. Vinnsla fermingarskeytanna hefur farið fram með nær óbreyttu sniði fram til þessa. En nú er annað uppi á teningnum því þær þurfa nú í fyrsta skipti að taka tillit til nýrra persónuverndarlaga.
„Við tókum á það ráð vegna laganna að bjóða forráðamönnum væntanlegra fermingarbarna að senda okkur nafn og fermingardag þeirra ef þau heimiluðu kvenfélaginu að birta nöfn þeirra á sérstöku pöntunarblaði sem kvenfélagið dreifir í öll hús í bænum.
Þessari orðsendingu var komið fyrir í hópi sem bæjarbúar hafa komið sér upp á Facebook og þannig hjálpast fólk að við að koma þessu á framfæri. Þegar þetta er skrifað hafa allir forráðamenn væntanlegra fermingarbarna gefið samþykki sitt. Hópurinn heitir ,,Bærinn okkar Neskaupstaður,“ segir Helga.
Engin ferming, engin skeyti
Nú ríkir samkomubann sem sett var á af ríkísstjórn íslands. Þetta hefur gífurleg áhrif á samfélagið og auðvitað hverskonar samkomur. Þjóðkirkjan gaf út í kjölfarið að öllum fermingum hefur verið frestað Kvenfélagið mun því bíða með verkefnið um sinn en fara af stað með fermingarskeytin þegar fyrir liggur hvenær fermingar skuli fara fram.
Sterk hefð
Hefðin fyrir fermingarskeytunum er og hefur ávallt verið sterk í Neskaupstað. „Já hún er það og það er alltaf mikil þátttaka frá almenningi og fyrirtækjum sem senda fermingarbörnum kveðju og styrkja um leið góð samfélagsleg verkefni sem kvenfélagið Nanna er þekkt fyrir að sinna innan samfélagsins.“
Í öll þessi ár hefur kveðjan á kortinu haldist eins. „Þetta er stöðluð kveðja með undirskrift þeirra sem senda kveðjuna hverju sinni. Kvenfélagið sér um að prenta skeytin, koma þeim í umslög og tryggja að þau komist til viðkomandi aðila.“
Allur ágóði af sölunni fer í að styrkja ákveðna starfsemi í bænum. Nú síðast gaf kvenfélagið fæðingardeild sjúkrahússins í Neskaupstað nýburavöggur.
Leiðrétting
Þegar Austurglugginn fjallaði um Kvenfélagið Nönnu og skeytin þeirra í síðasta tölublaði sínu var Kvenfélaginu eignaður hinn árlegi jólamarkaður Hosanna sem er ekki sama félag heldur félagsskapur núverandi og fyrrverandi starskvenna HSA.
Undirritaður biðst velfvirðingar á þessum misstökum.
Stjórn Kvenfélagsins Nönnu. Frá vinstri: Helga M. Steinsson, Bjarney Stella Kjartansdóttir, Sólveig Einarsdóttir, Anna S. Þórðardóttir, Dagný Gunnarsdóttir og Þorgerður Malmquist. Mynd úr einkasafni.