Áheitaganga Enn gerum við gagn hafin

Göngufólk undir merkjum „Enn gerum við gagn“ lagði upp í áheitagöngu til stuðnings Krabbameinsfélagi Austfjarða á Reyðarfirði í gærmorgunn. Markmiðið er að ganga rúma 350 km frá Dalatanga í norðri til Þvottárskriðna í suðri í áföngum á næstu vikum.

Um fimmtíu manns gengu fyrsta spölinn, en hópurinn skiptir sér annars vegar í suður átt að Fáskrúðsfirði, hins vegar til norðurs í átt að Eskifirði. Hvor hópur gekk um tvo kílómetra.

„Framtak sem þetta styrkir samfélagið. Það er ekkert nema gott við þetta,“ sagði Karl Óttar Pétursson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar sem jafnframt er verndari göngunnar.

Frumkvæðið að göngunni kemur frá félögum í Jaspis, félagi eldri borgara á Stöðvarfirði sem síðar fengu félaga í öðrum félögum í Fjarðabyggð og Djúpavogi til liðs við sig. Áheitaseðlar hafa verið sendir inn á heimili og fyrirtæki í sveitarfélögunum og rennur ágóðinn til Krabbameinsfélag Austfjarða.

Jóhann Sæberg, formaður félagsins, sagði við upphaf göngunnar að félagið hefði styrkt félagsmenn um á aðra milljón í fyrra. Þeir styrkir væru að miklu leyti að þakka fórnfúsum einstaklingum á borð við þá sem mættu í gönguna. „Fyrir tilstuðlan fólks eins og ykkar er félagið svona öflugt. Mér þykir vænt um að þið skulið velja félagið.“

Hann benti einnig á að framtakið hvetti til útivistar og hreyfingar sem skipti máli í bata eftir erfið veikindi eins og krabbamein. „Það er ekkert mikilvægara til að koma sér aftur í gang eftir langvinn veikindi en að hreyfa skrokkinn.“

Björn Hafþór Guðmundsson, yfirgöngustjóri, ræsti gönguna við Reyðarfjarðarkirkju eftir að hann hafði farið yfir öryggismál en göngufólk klæðist gulum vestum merktum átakinu og félaginu. Hann hvatti fólk til að þvo ekki vestin því svitalyktin væri holl.

enn gerum vid gagn 0039 web

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar