Alifuglar á vappi í iðnaðarhverfi Egilsstaða
Hópur af alifuglum hefur vakið talsverða athygli fólks sem starfar við götuna Miðás á Egilsstöðum, oft nefnt iðnaðarhverfið. Eigandinn segir þær hafa tekið þátt í bæjarlífinu þegar fór að hausta.„Í sumar voru þær fyrir innan hverfið, þar er tjörn sem þær héldu til á. Nú þegar hefur farið að hausta hafa þær rölt um bæinn,“ segir Guðmundur Ármannsson húsasmiður og eigandi fuglanna.
Um er að ræða tvo hópa. Annars er hann með 50 endur sem halda sig á sínum stað en síðan fimm aligæsir sem undanfarnar vikur hafa átt það til að bregða sér á rölt um götuna. Fjöldi fyrirtækja er með starfsemi við Lyngás og þar eru meðal annars skrifstofur sveitarfélagsins Múlaþings.
Miðað við umræður á samfélagsmiðlum virðast þær almennt vekja gleði þeirra sem sjá þær og það eru viðbrögðin sem Guðmundur kveðst hafa fengið. „Flestir virðast hafa gaman af þessu.“
Guðmundur segist hafa fengið sér fuglana til að prófa hvernig honum gengi með slíkan búsmala. Hluti stofnsins kom frá Álftanesi og ólst þar upp í næsta nágrenni við forsetabústaðinn á Bessastöðum. Fuglarnir komu síðan fljúgandi austur í Egilsstaði – með áætlunarflugi í búri.