Allir að horfa á Útsvar í Hlymsdölum í kvöld!
Í kvöld keppir lið Fljótsdalshéraðs við lið Árborgar í Útsvari, spurningakeppni sveitarfélaganna í Sjónvarpi. Sigri lið Fljótsdalshéraðs í kvöld fær það tækifæri til etja kappi við Kópavog í lokaeinvígi. Kópavogur sigraði Norðurþing með 97 stigum gegn 74 um síðustu helgi. Í fyrstu umferð vann Fljótsdalshérað Vestmannaeyjar 117-63, þá Norðurþing 114-83 og í þriðju umferðinni Akureyri 86-83.
Héraðsbúum og öðrum velunnurum liðsins er í kvöld boðið í Hlymsdali, félagsmiðstöð aldraðra á Egilsstöðum, til að sýna stuðning og leggja góðu málefni lið. Austurglugginn óskar liðinu góðs gengis.
Í Hlymsdölum verður bein útsending frá keppninni á breiðtjaldi. Með aðgangseyri fyrir kökuhlaðborð inn í Hlymsdali í kvöld, 1.000 krónum, á að stofna sjóð fyrir börn og unglinga á Fljótsdalshéraði. Í hann má síðan sækja um ferðastyrk fyrir þau til tómstunda- og íþróttastarfs. Hugmyndin kemur til vegna vaxandi fjárhagsörðugleika hjá fjölskyldum og dæma um að börn og unglingar komist ekki í keppnisferðalög eða annað með félögum sínum vegna fjárskorts. Þriggja manna stjórn um annast styrktarsjóðinn og verður hann skipaður fulltrúa frá félagsþjónustu Fljótsdalshéraðs, yfirþjálfara frá Hetti og einu foreldri.
Boðið verður upp á veisluhlaðborð meðan á keppni stendur. Fellabakarí býður upp á tertur og brauð, Fljótsdalshérað leggur til salinn og fleiri stuðningsaðilar eru MS, Vífilfell, Söluskáli Skeljungs á Egilsstöðum, Kvenfélagið Bláklukkur og konur á Egilsstöðum sem ætla að gefa bakkelsi á hlaðborðið.
Húsið opnar kl. 19:30. Hver fjölskylda borgar að hámarki þrjú þúsund krónur í hlaðborðið. Frítt er fyrir 8 ára og yngri.