![](/images/stories/news/2016/innrás_úr_austri.jpg)
Allir blindaðir í Ástralíu?
„Stundum þróast verkefni í undarlegar áttir,“ segir Guðjón Birgir Jóhannsson, einn af forsprökkum BLIND verkefnisins sem er eitt af fjórum tónlistaratriðum Innrásar úr Austri sem fer fram í Hörpu um næstu helgi.
„Tónleikarnir verða ótrúlega fjölbreyttir þar sem gestir fá að upplifa ævintýraheim BLIND, gítarbærðing frá DÚTL, rokk og ról frá VAX og electróníska tóna með videolistaverkum frá FURU,“ segir Guðjón Birgir, en öll þessi atriði eiga rætur sínar að rekja til Austurlands.“
„Myndi segja að þetta væri svona 60/50“
Skipuleggjandi tónleikana, Jón Hilmar Kárason, segir marga erlenda gesti koma á BLIND á ári hverju.
„Við heyrðum af áhuga frá allaleið frá Ástralíu eftir BLIND tónleikana á Eistnaflugi í sumar. Við vissum að við vorum með svolítið magnaða hugmynd þegar við fórum af stað með verkefnið fyrir þrem árum en að áhuginn sé svo mikill bæði hér heima og erlendis kemur skemmtilega á óvart.“ Aðspurður hvort að búið sé að ákveða tónleika ytra segir hann; „Það er ekki búið að bóka flug, en ég myndi segja að þetta væri svona 60/50.“
Spilað á kaktus og saumavélar
Jón Hilmar segir að viðbrögð gesta sé mjög góð. „Á BLIND tónleikum upplifa gestir tónlist, sögur, hljóð og ýmislegt fleira með bundið fyrir augun, en sú nálgun gefur listamönnunum óteljandi tækifæri á að koma gestum á óvart. Við dæmum svo mikið með augunum en allir fordómar hverfa á BLIND.
Við höfum spilað á kaktus og allir hlusta. Við höfum spilað á saumavél og engin hlær. Þegar sjónin er ekki að trufla okkur getum við hlustað dýpra og heyrt meira. Sennilega eru þetta einu tónleikarnir í heiminum sem engin hefur nokkurtíma tekið upp hljóð eða mynd á símann sinn. Við höfum aldrei sýnt BLIND fyrir 500 manns í einu og það verður spennandi að flytja tónleikana fyrir svo marga,“ segir Jón Hilmar.
Samstarfs og styrktaraðilar Innrásar úr Austri: Styrktarsjóðut samtaka um tónlistarhús og Ruthar Hermanns, Flugfélag Íslands, SVN og SÚN.
Innrás úr Austri verður í Norðurljósasal Hörpu laugardaginn 10. september. Miðasala fer fram á harpa.is og tix.is