Allir hafa skoðanir

Aron Daði Þórisson, nemandi í 10. bekk Grunnskóla Djúpavogs, vann til fyrstu verðlauna í ritgerðarsamkeppni sem Landsbyggðarvinir í Reykjavík og nágrenni efndu til. Verðlaunin voru afhent við hátíðlega athöfn í Norræna húsinu í dag. Yfirskrift verkefnisins er „Heimabyggðin mín“.

Aron Daði, lengst til hægri, ásamt menntamálaráðherra og öðrum verðlaunahöfum. Mynd: Austurglugginn/Gunnar
„Ég held þetta sé byrjunin á einhverju góðu,“ sagði Aron Daði í samtali við Austurgluggann í dag. Ritgerð Arons Daða, sem birt verður í Austurglugganum, heitir „Nýr og betri Djúpavogur.“ Í rökstuðningi dómnefndar segir að Aroni takist að koma frá sér sérlega áhugaverðum hugmyndum á lifandi, skýran og persónulegan hátt. Lokaorð ritgerðarinnar voru prentuð á veggspjald sem hékk uppi í dag, en þau eru: „Ef þú ert ekki partur af lausninni þá ertu partur af vandamálinu.“

 

Hann lagði ásamt samnemendum sínum í 8. – 10. bekk í mikla rannsóknar- og undirbúningsvinnu við skrifin. „Við ræðum þetta ekki mikið okkar á milli en það hafa allir skoðanir. Okkur dreymir öll um ákveðin störf en flest þeirra eru í höfuðborginni. Eðli þeirra er samt þannig að hægt ætti að vera að vinna eitthvað af þeim úti á landi.“

 

Ritgerðarsamkeppnin var fyrri hluti verkefnisins en næsta skref verður að útfæra eina af hugmyndunum. Það er þegar hafið í samstarfi við sveitarstjórn Djúpavogshrepps.

„Við ætlum að gera göngustíg um fuglasvæðið svo menn geti gengið um það án þess að blotna.“

 

Tveir skólar úr hverjum landshluta taka þátt í keppninni. Um 400 ritgerðir voru skrifaðar af nemendum í 8. – 10. bekk en 21 var valin fyrir dómnefnd. Landsbyggðarvinir í Reykjavík og nágrenni eru hluti af samtökunum Landsbyggðin lifir.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar