Allt nema þungarokk í afmælissöngleik Egilsstaðakirkju

Frumsaminn söngleikur „Hvar er krossinn?“ verður fluttur í Egilsstaðakirkju á morgun sem hluti af hátíðahöldum í tilefni af 50 ára afmæli kirkjunnar í ár. Ýmsar tónlistarstefnur mætast í söngleiknum sem ekki heyrast oft í kirkjunni.

„Í vor var hátíðarmessa og við vildum gera eitthvað léttara í haust. Ég og Þorgeir (Arason) sóknarprestur vorum að íhuga tónleika en við vildum ekki bara hafa hefðbundna tónleika.

Þess vegna fór ég að hugsa og úr varð þessi söngleikur. Hann er svona 75% tónlist, svo er smá saga á milli. Hann fjalar um unglinga sem hittast og verða ástfangnir og ferðast svo saman í gegnum þrjú æviskeið,“ segir Sándor Kerekes, organisti Egilsstaðakirkju og leikstjóri.

Tónlistin í verkin tekur að einhverju leyti mark af þeim tímabilum sem sagan gerist á. „Þarna eru margar tónlistarstefnur. Bryan Adams, Abba, gospel, kirkjulög – flest annað en þungarokk. Þetta á að vera tónlist við allra hæfi enda vonumst við til að sem flestir mæti til að vera saman og lyfta sér upp,“ segir Sándor.

Þrjú söngpör túlka parið á mismunandi tímum í gegnum söngleikinn en eru síðan studd af tveimur kórum karla og kvenna sem annars eru kenndir við kirkjusmiði, hins vegar engla. „Fyrsta hugmyndin var að ná sem flestum kórum af Austurlandi saman en það var erfitt. Okkur tókst hins vegar að búa til góðan hóp og ég er mjög ánægður með afraksturinn.

Við erum með fólk úr ýmsum áttum sem kemur að uppsetningunni, hvort sem það er að smíða sviðsmyndina eða græja ljósin. Við verðum núna fram á nótt að leggja lokahönd á þetta en svo verðum við klár.“

Söngleikurinn verður sýndur klukkan 17:00 á morgun í Egilsstaðakirkju.

Skrafað um skáldið Stefán Ólafsson


Hann er hins vegar ekki einu viðburðinn á morgun sem haldinn er undir merkjum afmælisins. Frá klukkan 10-14 verður verður dagskrá í Vallanesi um Stefán Ólafsson, prest og skáld sem uppi var á 17. öld. Hún er tvískipt. Fyrir hádegi verður sagt frá Stefán frá ýmsum hliðum.

„Sól skein yfir sæ grænan“ er titillinn á hugleiðingu Gunnars Kristjánssonar, fyrrum prests í Vallanesi og prófasts emeritus, um kollega sinn; Katelin Parsons, aðjunkt við HÍ og ritstjóri hjá Árnastofnun, ræðir um Stefán og sýslumennina; Kristján B. Jónasson, rithöfundur og bókaútgefandi, nefnir sitt erindi „Hlegið og grátið á Héraði – Stefán Ólafsson lætur sóknarbörnin hafa það óþvegið“; og Margrét Eggertsdóttir rannsóknarprófessor á Árnastofnun tekur fyrir ást og vináttu í ljóðum austfirsku skáldanna. Eftir hádegið verður farið yfir lífshlaup skáldsins með söng og leiklestri en Stefán samdi meðal annars Grýlukvæði.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar