![](/images/stories/news/2016/Katrín_Guðmundsdóttir_1200.jpg)
„Alltaf látin vita að ég eigi ekki að hætta“
Listakonan Katrín Guðmundsdóttir á Eskifirði hefur rekið Verkstæði Kötu um árabil þar sem hún vinnur og selur fallega muni úr leir og gleri. Hún segist ómöguleg nema hún sé sífellt að skapa.
„Ég held að þetta hafi nú alltaf verið í mér frá því að maður var að hnoða drullukökur sem krakki, mér fannst ægilega gaman að vera í svona leirdrullu, búa til leirkökur, fígurur og svoleiðis,“ segir Katrín, aðspurð að upphafinu.
Katrín nam glerlistina í Danmörku og hefur síðan þá verið með vinnuaðstæðu víðsvegar á Eskifirði en flutti nýlega með allt saman í kjallarann heima.
„Ég fór í lýðháskóla í Danmörku og taldi mig tala svaka góða dönsku en ég var með góðan dönskukennara á Ísafirði þar sem ég ólst upp. Ég hafði alltaf sagt börnunum mínum að ég gæti sko hjálpað þeim með dönskunámið og hélt að þetta væri allt þarna inni ennþá. Ég fór ein út og var komin yfir fimmtugt. Þegar ég kom þangað áttaði ég mig á því að ég skildi bara ekki orð og vildi helst hætta við.“
Kata lét ekki deigann síga, heldur kláraði námið, kom heim og opnaði verkstæðið. Hún segir það að vinna við leir jafnist á við heilun.
„Ég þarf að komast í leirinn reglulega og finn alveg á lófunum á mér þegar það er tímabært. Þetta eru tengsiin við náttúruna, maður er með náttúruna í höndunum, fær útrás fyrir sköpunargleðina og setur hluta af sjálfum sér í leirinn.“
Hugmyndir vitja hennar í draumi
Kata er óþrjótandi uppspretta sköpunar og stundum koma hugmyndir til hennar í draumi.
„Ég er alltaf með bók við hliðina á mér og skrifa niður ef ég vakna á nóttunni með hugmyndir.
Ég er viss um að það er einhver með mér sem er er að segja mér til. Stundum þegar ég hugsa ég að þetta sé vonlaust, ég fari bara að prjóna eða eitthvað annað, þá er annað hvort eins og það sé hnippt í mig eða ég þá beðin um að vinna einhver ákveðin verkefni – ég er í það minnsta alltaf látin vita að ég eigi ekki að hætta.“