Alltaf tilbúin að kynna sér nýjustu tækni

Héraðsprent á Egilsstöðum er rótgróið fyrirtæki á Austurlandi sem annast prentþjónustu og hönnun, ásamt því að gefa út Dagskrána, fríblaðið Kompás og ýmislegt fleira. Að austan á N4 leit við þar fyrir stuttu.



Þó svo fyrirtækið sé stórt og öflugt í dag þá hófst sagan með einni prentvél í bílskúrnum hjá þeim Gunnhildi Ingvarsdóttur og Þráni Skarphéðinssyni, en þau fluttu í Egilsstaði árið 1972.

Hröð framþróun í tækni hefur gert það að verkum að starf prentarans hefur breyst mikið á þessum árum sem liðin eru frá stofnun Héraðsprents. Þá var allt prentað með handsettu letri úr blýstöfum sem raða þurfti saman. Í dag fara upplýsingarnar beint frá tölvum yfir á svokallaðan plötuskrifara.

„Byltingin hefur verið svo hröð á þessum 46 árum sem við höfum verið starfandi að það er ekki hægt að bera það saman,” segir Þráinn, en þau hjónin hafa alla tíð verið afar meðvituð um mikilvægi þess að tileinka sé nýjungar ef fyrirtækið ætti að halda velli.

Hanna Gyða, dóttir Gunnhildar og Þráins, er prentsmiður og starfar hjá Héraðsprenti. „Foreldrar mínir mega eiga það að þau hafa alltaf verið mjög dugleg að fylgjast með allri tækniþróun. Pabbi er orðinn áttræður, en um leið og eitthvað nýtt kemur þá eru þau til í að tékka á því. Ég held að það sé lykillinn að því að svona fyrirtæki geti lifað og jafnvel keppt við stóru fyrirtækin í Reykjavík.”

 

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar