ARKÍS hyggst loka starfsstöð á Egilsstöðum
ARKÍS hefur sagt starfsmönnum sínum á Egilsstöðum upp og verður starfsstöð fyrirtækisins þar lokað 1. febrúar að öllu óbreyttu. Þrír starfsmenn voru hjá fyrirtækinu á Egilsstöðum til skamms tíma, en eru nú tveir. Einar Ólafsson, byggingafræðingur, sem starfað hefur hjá ARKÍS segir stöðuna mjög erfiða hjá arkitektum og byggingafræðingum um land allt.
,,Við höfum tímann fram til 1. febrúar og ef ekkert gerist fyrir þann tíma verður slökkt og lokað," segir Einar. ,,ARKÍS er ekki eina fyrirtækið í þessum sporum. Félag sjálfstætt starfandi arkitekta tók saman tölur yfir þá sem líklegt er að verði sagt upp núna og lítur út fyrir að á milli 60 og 70% af öllum starfandi arkitektum og byggingafræðingum í þessum geira verði sagt upp. Margir byggingafræðingar eru að vinna hjá verktökum og á verkfræðistofum. Svo finnst mönnum mikið að verið sé að segja upp 10% af bankamönnum, en þarna er verið að losa alla samninga við hartnær heila stétt. Þetta lagast ekki nema komi inn eitthvað stórt á vegum ríkisins. Eitthvað mannfrekt eins og háskólasjúkrahús eða annað hönnunarverkefni. Það væri gott fyrir alla og myndi ekki skipta meginmáli hver fengi slíkt verk."
Á vef ARKÍS er fyrirtækið sagt alhliða hönnunar- og ráðgjafarfyrirtæki sem hefur starfað frá árinu 1997. ARKÍS er með stærstu arkitektastofum landsins og rekur teiknistofur bæði í Reykjavík og á Egilsstöðum, auk umtalsverðra umsvifa erlendis. Hjá fyrirtækinu vinna rúmlega fimmtíu starfsmenn.