Ástarljóð um aðskilnaðinn

Egilsstaðabúinn Sveinn Snorri Sveinsson sendi nýverið frá sér sína tíundu ljóðabók, Götuslátt regndropanna. Hluti bókarinnar eru ástarljóð til eiginkonu hans sem samin voru þegar þau voru í fjarbúð.


„Árið sem ég byrjaði að vinna þessa bók fór ég til Dubai til að hitta konu frá Filippseyjum sem ég var orðinn ástfanginn af. Hún kom síðan hingað sama ár og næstu þrjú ár fór ég út til Filippseyja með millilendingu í Sameinuðu arabísku furstadæmunum. Ég er því mikið á ferðinni.

Einn kafli bókarinnar eru ástarljóð sem eru innblásin af henni. Þau eru mikið til samin þegar við vorum í sundur því íslenskar reglur gerðu okkur erfitt um vik að vera hér. Aðskilnaðurinn kemur þannig fyrir en kaflanum lýkur á ljóði þar sem við erum gift,“ segir Sveinn Snorri.

Að öðru leyti sækir hann innblástur í kvikmyndir og bækur auk þess sem hann gerir upp við atburði úr fortíðinni. „Ég segi hins vegar hvorki beint hvaða manneskju eða við hvað ég er að gera upp við.“

Frystu ljóðabókina gaf hann út árið 1991 og þær eru síðan orðnar tíu auk myndasögunnar um Skugga Rökkva. Síðasta ljóðabók kom út árið 2013.

„Upphafsljóð nýju bókarinnar varð til þegar ég kláraði hana en passaði ekki inn. Mér finnst það fara vel fremst í þessari.“

Fyrsti kafli bókarinnar er skrifaður með ákveðinni tækni. „Ég fæ innblástur og byrja að skrifa en reyni að stoppa ekki til hugsa heldur held áfram þar til ég næ endanum. Svo vinn ég eftir á úr því sem fer í vasabókina.“

Hann segir ljóðin í nýju bókinni lengri en oft áður. „Ég fékk einu sinni þá gagnrýni á bók að löngu ljóðin mín væru best og því legg ég meiri áherslu á þau en það er líka einn kafli með styttri ljóðum.“

Sveinn Snorri heldur áfram að skrifa ljóð en þau eru ekki endilega í forgangi þessa dagana. „Ég er búinn að skrifa tvær heimildaskáldsögur sem byggja á sögu mín og konunnar minnar þessi ár sem við höfum búið saman í Manilla og Dubai. Þetta verða alls þrjár bækur en ég veit ekkert hvenær þær koma út.“

Göngutúr með fjölskyldunni (brot)

Á sunnudögum
tek ég vagninn
niður á torg
með eftirvæntingarglampa
í augum
og poka fullan
af grjóti.

Því á deginum sem Guð
tók sér hvíld
frá sköpunarverkinu
er ég vanur
að grýta mann.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar